mánudagur, október 31, 2005

Harðsperrur

Ég er með svo miklar harðsperrur í hliðarspikinu í dag að ég er að spá í að fara ekki í gymmið. Ég var á dansnámskeiði um helgina, alveg svakalega gaman, einhverjir gaurar sem vinna við að búa til dansspor fyrir tónlistarmyndbönd að kenna. Ég kann auðvitað ekkert að dansa, skráði mig því í byrjendahópinn og var þar ein með 35 öðrum 12 ára stelpum að sveifla mér eitthvað fram og til baka :D En mér fannst þetta það gaman að ég er að spá í að splæsa á mig dansnámskeiði eftir áramótin.

Annars er bara brjálað að gera í skólanum eins og venjulega. Ég strax orðin alla vegana fjórum köflum eftir á í lestri, en er að fara að læra núna á meðan María Rún tekur beauty-blundinn sinn :)

Gréta.

föstudagur, október 28, 2005

Ojj

Snjór! ömurlegt... sérstaklega þegar maður er á sumardekkjunum enþá :( Ég fór nú samt í gymmið í morgun, var með svo miklar harðsperrur frá því í gær að ég bara varð að fara og gera smá yoga, annars var nú eiginlega frídagur í dag. Prófaði að vigta mig og viti menn, ætli maður sé ekki bara strax búin að missa rúmt hálft kíló :) Fínt, alveg á áætlun, ca. 100 g á dag að fara af mér. Gúddís.

María Rún er alveg komin í startholurnar með að skríða. Er að ná tökum á því að koma sér upp á 4 "fætur" og ruggar rassinum alveg fram og til baka þegar það tekst. Svona eins og hún sé að hugsa "hey, þetta hreyfist!". Hefur alveg tekið göngutúra í sófanum heima :) Ég var auðvitað alveg að springa úr stolti þegar ég sá þetta og sagði öllum í fjölskyldunni alveg fjórum sinnum hvað væri í gangi :D

En jæja, það er Idol í kvöld. Vá, ef þetta verður ekki mest kósý sófakvöld ever, ég ætla að fara í heitt fótabað og allan pakkan bara. Fyndið að horfa á þennan þátt eftir að Palli kom í dómnefndina, alltaf að sveifla hausnum skælbrosandi með þeim sem eru að syngja, á meðan Bubbi er með eitthvað Terminator look bíðandi eftir leyfi til að drepa... Held að þetta verði besta serían hingað til.

Gréta.

fimmtudagur, október 27, 2005

Átaksblogg

Ég horfði á Sirrý í gær og fannst það góður þáttur. Velti því fyrir mér að breyta mínu bloggi í svona átaksblogg, en ég held það muni ekki ganga upp því hugmyndin er að fá stuðning frá sínum nánustu í gegnum comment á bloggin og það hefur nú ekki farið mikið fyrir commentum á þessu bloggi upp á síðkastið...

Engu að síður hef ég ákveðið að losa mig við 4 kíló fyrir jólin :) Ég veit það er dáldið tæpt, ekki nema rétt rúmar 8 vikur til jóla! (ó mæ got, þarf að fara að undirbúa jólakortin...) En það er ekkert gaman að þessu ef það er engin áskorun í gangi. Ég er nú búin að vera í íþróttum í nokkur ár og er búin að þróa hið fullkomna kerfi fyrir mig, það er ekkert víst að það virki fyrir neinn annan, þess vegna hef ég ekki hugsað mér að gefa út bók til að afhjúpa leyndarmálið, sorrý.

En svona til gamans ætla ég samt að láta fljóta með fréttir af því hvernig gengur. Fyrsta skrefið í því að losa sig við 4 kíló er að sjálfsögðu að taka matarræðið í gagngera endurskoðun. Nú, ég hætti að borða nammi eins og ég sagði frá hérna um daginn (nema ísblóm þegar illa stendur á). Það gengur fínt og er líklegt til að valda 1 kíló missi á 8 vikum. Annað sem þarf að gera er að drekka 2 l. af vatni á dag, það hjálpar líkamanum að hreinsa út eins og 1 kg. á 8 vikum. Í þriðja lagi þarf að fara í gymmið og brenna burt skvabbið, gæti losað mig við 1 kg. samt ekki alveg víst því vöðvar eru víst þyngri en fita = gæti staðið í stað með það.

Já, þetta er ca. planið fyrir nóvember, 2 kg. burt með vatni og réttara matarræði en venjulega, meira salat, út með brauð, inn með hrökkbrauð og All-Bran í staðinn og passa að eiga nóg af fiski og kjúlla í kvöldmatinn :)

Gréta - loosin' it.

miðvikudagur, október 26, 2005

Lausnin

Jæja, þá er kvennafrídagurinn afstaðinn og búið að tala við fullt af konum um jafnréttismál á milli kynjanna í fréttum undanfarna daga og finnst mér eins og áherslan hafi verið nokkuð mikil á launamun kynjanna. Að sjálfsögðu á að borga sömu laun fyrir sömu störf, það er ekki spurningin! eins og Raggi Reyk mynd orða það. Ég hvet konur til að spyrja alveg hiklaust í starfsviðtölum hvort starfsmannastjórinn (eða sá aðili sem tekur mann í viðtal) geti með góðri samvisku sagt manni hvort þetta séu sömu laun og karlmönnum eru boðin. Það hefur ekki verið hikað við það að spyrja mig um barnamál og neysluvenjur varðandi áfengi og tóbak í starfsviðtölum (nokkuð sem má ekki) og þá finnst mér bara allt í lagi að konur spyrji að þessu á móti án þess að vera feimnar við það. Maður verður að muna það að það er enginn spenntur fyrir því að gefa manni meiri pening en á þarf að halda og oft er fyrsta boð alls ekki það hæsta sem manni býðst, vera harðar stelpur!

En svo var líka rætt við fólk í týpískum láglaunastörfum, eins og leiðbeinendur á leikskóla. Það þýðir varla að bera sig saman við karlalaun þar, það eru nánast engir karlmenn. Og því miður er það þannig að leikskólastörf eru dáldið útsett fyrir það að vera láglaunastöður, ekki af því að það eru bara konur að vinna þarna, heldur líka út af því að launagreiðendurnir (þ.e. foreldrar) eru oft á tíðum ungt fólk með lítið á milli handanna og alls ekki færir um að borga mikið meira en nú þegar þarf að borga. Og ríkið getur því miður ekki dekkað mismuninn nógu vel (að því er virðist), þannig að þetta lítur út fyrir að vera vandamál í ákveðnum vítahring.

Allir eru nokkuð sammála um að ummönnunarstörf almennt séu lágt launuð og starfsfólkið eigi alveg skilið hærri laun, þetta gildir nánast um allar stöður sem snúa að ummönnun annarra einstaklinga, börn, gamalmenni, fatlaða einstaklinga, sjúklinga og já, örugglega einhver fleiri tilvik sem ég er að gleyma. En það þýðir ekki bara að benda á vandamálin, það verður að hugsa í lausnum. Og ég er með hugmynd að einni lausn sem mér finnst ekki svo galin: Umönnunarafsláttur. Sbr. sjómannaafsláttur. Þannig myndu allir sem vinna við einhvers konar ummönnun á öðru fólki, hvaða nafni sem það nefnist (einhver skilgreindur listi frá einhverjum ráðherra) vera með sams konar afslátt og sjómenn. Það myndi þýða að manneskja með 150.000 króna mánaðarlaun borgaði því sem næst enga skatta (innan við 3.000 krónur á meðalmánuði). Þetta myndi umsvifalaust hækka ráðstöfunartekjur þessa fólks án þess að einhver þyrfti að láta meiri pening út og sennilega útrýma að einhverju leyti þeirri manneklu sem er á svona vinnustöðum í dag.

Bara svona smá hugstrumpur...

Gréta.

mánudagur, október 24, 2005

Smá breytingar

Ákvað að breyta aðeins útlitinu á blogginu, finnst þessi sumargræni litur ekki alveg passa núna þegar veturinn er að ganga í garð.

Það var mikill léttir að klára þetta blessaða próf núna á laugardaginn. Ég held að það séu svona 60% líkur á að ég nái því, sem er fínt, mér fannst vera um 50% líkur áður en ég fór í prófið að þetta myndi ganga upp. Það var mikið spennufall eftir þetta og við stelpurnar ákváðum að lyfta okkur aðeins upp og fórum á stelpudjamm á laugardagskvöldið. Það var fínt, vorum reyndar ekkert lengi, ég var komin heim um kl.2. Svo fannst mér svo hræðilegt að fara að faðma barnið mitt nokkrum klukkustundum síðar angandi af reykinga og drykkjulykt þannig að ég fór í sturtu áður en ég fór í háttinn kl.2.30 um nóttina :) Fínt maður.

Sunnudagurinn var afskaplega rólegur, ég fór í gymmið og svo til ömmu Dóru. Þar var hálfgert ættarmót í gangi, Guðjón frændi frá Danmörku í heimsókn. Tók fullt af myndum en ég bara finn ekki snúruna til að plögga vélinni við tölvuna og flytja myndirnar yfir, ekki nógu gott, verð að kaupa mér snúru.

Í dag fórum við María Rún svo til læknisins í 6 mánaða skoðun og sprautu. Vá, sprautan var alveg hræðileg. Doksi sagði að börn grétu yfirleitt í svona 5 sek. undan efninu á meðan líkaminn væri að draga til sín efnið. María Rún Leifsdóttir þurfti sko að gráta í amk. 5 mínútur og var með ekkasog í alveg 45 mínútur á eftir, bara svona til að það kæmist örugglega til skila að þessi sprauta var alveg hræðileg! Þetta var allt að gerast um leið og kvennafundurinn var niðrí bæ, þannig að við misstum eiginlega af honum, en við röltum þarna framhjá á leiðinni aftur heim. María var að sofa úr sér þetta áfall í vagninum :P Þorði ekki einu sinni að taka hana inn strax, lét hana bara sofa úti í smá stund.

En núna ætla ég að fara að læra dáldið.
Bæjó.

föstudagur, október 21, 2005

Síðasti sumardagur

Í dag er víst síðasti sumardagur og María Rún fagnar hálfs árs afmæli í dag :) Var reyndar að velta því fyrir mér hvort sumarið á Íslandi væri alltaf 6 mánuðir skv. dagatalinu, og líka því sem er enn mikilvægara að vita, hvaða bjartsýnismaður var það sem ákvað að sumarið á Íslandi skyldi teljast 6 mánuðir á ári!? Dear God, we'd dance naked on the streets ef það væri satt!

Og stórfréttir: tönn nr. 2 er komin fram! Ekkert smá bráðþroska þetta barn :) hefur það auðvitað frá mömmu sinni :P Púff, ég verð víst að setja pening aftur í baukinn fyrir tönnina. Það var svo mikill peningur í bauknum þegar við fórum með hann í bankann í gær að hún fékk bæði smekk og disk frá Georgi mörgæs :) Á nú pabbi hennar mest allan heiðurinn af því að vera duglegur að setja klink í baukinn. Reyndar einum of duglegur, ég get ekki einu sinni fundið einn tíkall á heimilinu til að setja í stöðumæli, hvað þá meira.

En jæja, ég ætla að fara og eyða þessu kvöldi í að leysa skattadæmi (jei). Prófið er í fyrramálið, ég held að það séu ekki nema svona 50/50 líkur á að ég nái prófinu, ég meina, þetta er bara erfitt fag og ég hef bara alls ekki haft þann tíma sem ég hefði persónulega þurft til að lesa, en í versta falli fer ég bara í endurtektarpróf í ágúst á næsta ári, svo sem ekkert end of the world ef þetta hefst ekki.

Gréta.

fimmtudagur, október 20, 2005

Sparnaður

Halló,

bara svona að láta vita að ég er enn á lífi :) Er að reyna að undirbúa mig fyrir þetta blessaða skattapróf núna á laugardaginn, veit ekki hvernig það á eftir að fara :( Sem betur fer geta tengdó verið með Maríu Rún alveg eftir hádegi þessa dagana, totally savin' my ass, svo ekki sé sterkara til orða tekið.

En með sparnaðinn minn og fjárhagsnámskeiðið sem ég tók núna í haust, þá finnst mér eins og fólk sé eitthvað að misskilja mig og hlæja að mér þegar ég segist vera að gera fínt í íbúðinni minni og já, bara svona yfirhöfuð að gera eitthvað fyrir mig eða fjölskylduna (alltaf verið að spyrja "hva, eruð þið ekki að spara?"). Svo núna ætla ég að útskýra hvað sparnaður er í mínum huga:

Framtíðarsparnaður = viðbótarlífeyrissparnaður: Algjört þarfaþing hvers einstaklings sem ætlar mögulega að geta leyft sér að hafa það gott í ellinni. Að sjálfsögðu erum við með svoleiðis.

Nútíðarsparnaður = 10% af launum hvers mánaðar. Það er það sem ég legg til hliðar í hverjum mánuði, sama hversu mikil eða lítil laun ég fæ, minnst voru það ca. 7.000 krónur núna í sumar þegar ég var í fæðingarorlofinu. Sumum finnst ekki taka því að spara 7.000 krónur, en ég spara bara 10% no matter what, þá "gleymist" það ekkert. Öllu öðru eyði ég bara og geri það með bros á vör, borga reikninga, leigu, mat og svo aðra neyslu sem við Leifur viljum veita okkur.

Þetta er það sem ég kalla að spara, svo er hægt að vera "hagsýnn" líka, t.d. versla í Bónus frekar en Nóatúni og svona. Ég reyni oftast að vera hagsýn en nenni því ekki alltaf, t.d. með bensínkaup, mér er alveg sama hvar er ódýrast, ég fer alltaf bara á "mína stöð". Það er líka sparnaður fólginn í því fyrir okkur að vera að leigja, því miðað við þá leigu sem við þurfum að borga og svo þær upphæðir sem við myndum þurfa að punga út fyrir 20.000.000 króna íbúðarlán í hverjum mánuði, þá erum við að spara okkur eina milljón krónur næstu 3 árin með því að halda áfram að leigja OG safna okkur pening á sama tíma.

Fólk heldur oft að það sé ódýrara að kaupa en að leigja, það fer auðvitað dáldið eftir því um hvaða tölur er verið að tala. Í okkar dæmi er því alveg öfugt farið, það að leigja og leggja fyrir er ódýrara fyrir okkur. Auðvitað gengur það hægt, en sú eign sem þó safnast upp safnast hraðar heldur en eignamyndunin væri í gegnum lánið ;) Þannig að ég hvet alla til að reikna nú dæmið alveg til enda áður en þeir fara að kaupa.

Þetta var sparnaðarpistill dagsins.

Lifið heil,
Gréta.

mánudagur, október 17, 2005

You Are What You Eat

Var að horfa á Stöð 2 áðan. Ég verð að segja að þáttur Dr. Gillian McKeith (sem er sérfræðingur á sviði næringar) er með einn best heppnaða og þarfasta raunveruleikaþátt sem framleiddur hefur verið. Þegar þátturinn hennar er á dagskrá sest ég með glósubókina fyrir framan skjáinn og skrifa niður það sem hún segir. Orð hennar eru lög í mínum eyrum. In fact þá langar mig geðveikt í bækurnar eftir hana, "You are what you eat" og "12 Natural Superfoods to Transform Your Health". Ég meina, eru ekki heilsufarstengdir sjúkdómar með algengustu dánarorsökum fólks á Vesturlöndum í dag? Maður getur þá alla vegana ekki nagað sig í handarbökin yfir að hafa ekki reynt að hugsa vel um líkamann sinn.

Jæja, vildi bara skjóta þessu að :) Er að þykjast vera að lesa undir prófið sem ég fer í núna næsta laugardag, Skattskil II. Jésús minn, hræðilega stressandi próf. Ég hef alveg gaman að skattadóti (alltaf gott að vera góður í skattinum), bara, þessi kennari, hann er too much. Hann kann lögin svo vel að það er bara eins og hann sé að fara með faðirvorið þegar hann vitnar í alls konar lagagreinar, bæði íslenskar og danskar alveg án þess að þurfa að hugsa sig um í eina sekúndu hvort það var nú 2. eða 3. töluliður 50. greinar laga nr. 90/2003 um tekju- og eignarskatt sem kveður á um það hvort arður telst til rekstarkostnaðar eða ekki (sem hann gerir ekki ef einhver hefur áhuga á að vita það).

Og ef einhverjum fannst erfitt að lesa þessa síðustu setningu ættuð þið að prófa að sitja tíma hjá kallinum, maður svitnar bara við að hlusta á hann. Önnur hver setning er einhvern vegin svona tilvitnun og var mér nú allri lokið í einum tímanum þegar hann fór að vitna í dönsk skattalög frá 1922! Búhú, I'm dead.

Gréta.

laugardagur, október 15, 2005

Fyrsta tönnin komin!

Ég skildi ekkert í því hvað María Rún var pirruð í dag þegar ég var að reyna að fá hana til að taka smá eftirmiðdagsblund. Óánægjuvæl alveg út í eitt og þá tók ég eftir henni, pínku ponsu tönnsla að gægjast upp í neðri gómnum :) Újé, beibí, 5 mánaða þegar fyrsta tönnin kemur. Ég hljóp beint fram og náði í Bonjellað og smurði hressilega á þetta, svo sofnaði hún loksins. Svo fékk hún auðvitað smá tannfé í baukinn, spurning hvort maður þurfi að kaupa tannbursta strax?

Annars þá leið mér eins og krypplingnum frá Notredam þegar ég vaknaði í morgun til að fara í prófið :( Almáttugur, ég var alveg búin á því, var að lesa til 2 í nótt og vaknaði snemma til að kíkja aðeins meira á efnið. Ég held mér hafi gengið vel í prófinu, en þori ekki að pæla of mikið í því, þessi kennari er svo skrítinn. Ég hef áður tekið próf hjá honum og þá fannst mér ég ganga þvílíkt vel en fékk svo bara 6,5 í einkunn sem er alveg ömurleg einkunn í mínum huga.

Svo er þessi kennari eitthvað svo skrítinn, t.d. í morgun, alveg typical fyrir þennan mann. Við tókum prófið á tölvu og allt í lagi með það, nema að það hafði gleymst að setja prófið inn á tölvuaðganginn okkar. Og þá ætlaði kennarinn að leysa málið með því að ná í það á diskettu og hlaupa á milli 40 manns og setja inn á tölvurnar. Sem betur fer benti einn nemandinn honum á tæknina, það væri nú bara hægt að setja prófið á netið og veita okkur þannig aðgang öllum í einu að prófinu. Kennslan hjá honum er líka í svipuðum dúr, hann er að reyna að útskýra eitthvað og fer alveg út og suður í einhverjum dæmum og sögum um hitt og þetta og svo er bara engin niðurstaða í lokin. Ég held að það sé bara af því að þá er hann búinn að gleyma því sjálfur um hvað hann var eiginlega að tala... æj, ég nenni ekki að pæla í þessu.

En þetta próf markaði ákveðin tímamót hjá mér :) Núna, eftir hartnær 20 ára samfellda skólagöngu frá því ég byrjaði í gamla góða Grundó á Akranesi og fram til dagsins í dag, er loksins hægt að telja þá áfanga sem ég á eftir að ljúka á fingrum annarrar handar! Vuhú, þessu er loksins að fara að ljúka, I can finally see the last hilltop. Skólagangan er svona eins og fjallganga, alla vegana hjá mér, alltaf þegar ég hef verið komin að endapunkti hef ég séð nýtt markmið til að stefna á aðeins lengra í burtu, en núna er þetta komið gott, ég ætla að geyma læknisfræðina, lögfræðina og sálfræðina til betri tíma, ég meina maður verður að hafa eitthvað að gera í ellinni :P

Gréta.

fimmtudagur, október 13, 2005

Hætt að borða nammi

Ég er hætt að borða nammi, nenni þessu ekki lengur. Eina undantekningin er þegar ég veltist um í sjálfsvorkun, þá er leyfilegt að borða ísblóm. Eins og t.d. núna :) Núna er ég að borða ísblóm því ég þarf að eyða öllu kvöldinu í að lesa fyrir próf. Booooring! (Smá pása til að fá sér skeið af ísblóminu)

Annars þá var Siggi bró að uppgötva það í dag að María Rún getur fært hluti á milli handa, en það mun vera týpískt 5 mánaðar einkenni :) Stóra stelpan mín. Og ekki nema 3 vikur í að hún byrji hjá Súsý frænku í daggæslu, oh, all grown up this child, mér líður bara eins og hún sé að flytja að heiman.

Að öðru leyti er nú mest lítið að frétta, ég geri svo lítið þessa dagana, varla að ég fari út í búð að versla í matinn, snýst allt um að læra bara. Eða jú, eitt enn, ég fór til Hornafjarðar í gær út af vinnunni. Ég fílaði mig alveg svakalega nútíma bissness konu, bara í flugvél með eina fartölvu í farangri og var að grúska í innri endurskoðun allan daginn. Já, já, svona er þetta í dag :) Þessi ferð lét mig fá þá hugmynd að maður þyrfti að splæsa á sig útsýnisflugi einhvern góðan veðurdaginn, svakalega flott að fljúga svona yfir og skoða litla landið sitt.

Gréta.

þriðjudagur, október 11, 2005

Próf próf próf...

Jebb, það er deffinitely próf-streita í mér þessa dagana. En hún lýsir sér aðallega í því að ég hef mikla þörf fyrir að fara í gymmið og taka til heima :) T.d. í gær, þá vaskaði ég upp alla íbúðina, tók mig mas. til og skutlaði nokkrum flíkum í handþvott (eitthvað sem ég nenni aldrei að gera) og þvoði svo líka balann sem óhreina tauið er að jafnaði geymt í. Það hefur ekki gerst á einum og sama deginum að öll íbúðin sé tekin í gegn frá því áður en ég varð ólétt. Svo í morgun reif ég mig upp og fór niður í WorldClass að hlaupa og þegar ég var komin heim langaði mig að fara aftur niður eftir og hlaupa aðeins meira. Svona er þetta :)

Ég reyni samt að halda þessu öllu innan skynsemismarka, WorldClass hjálpar mér að fá ekki of mikla vöðvabólgu undan lestrinum og tiltektirnar, tja þær taka auðvitað enda þegar allt er orðið hreint :) Svo nú er bara að byrja að lesa og troða Maríu Rún í pössun hvar sem því verður við komið, tengdó og Siggi bró taka sitthvora vaktina í dag :)

Gréta.

fimmtudagur, október 06, 2005

Life goes on

Já, svona eins og hún Lean Rhymes söng svo skemmtilega hérna um árið. Lífið heldur áfram og í gær urðu enn ein kaflaskiptin í okkar lífi þegar við María Rún hættum að brjóstastússast :) Núna er semsagt dagur #2 að líða án þess að hún hafi fengið brjóstið og hún virðist bara taka því nokkuð vel. Reyndar held ég að það sé aðeins að safnast í þau enþá hjá mér, veit ekki alveg hvernig þetta fer, vona bara að ég fái engar sýkingar. Ég keypti Stoðmjólk og hún féll nokkuð vel í kramið, ég krosslegg samt alltaf fingur þegar ég gef henni eitthvað nýtt og vona að hún fái ekki í magann, það hefur sem betur fer aldrei gerst :)

Suss, myndatakan í vinnunni í morgun. Ég fór extra snemma að sofa í gær (kl.23.00) og ætlaði að vakna og fara í sturtu og vera fersk á því... nei, nei, ætlaði aldrei að komast fram úr í morgun og mætti svona hálfsofandi í vinnuna. Sem betur fer var súper sminka á staðnum og gerði alla á svæðinu alveg grunsamlega ferska í útliti (svona miðað við að klukkan var nú bara 8:30 á virkum degi). Ég var einstaklega meðfærileg hjá ljósmyndaranum, hún hafði orð á því að hún þyrfti ekki að biðja mig um að "brosa með augunum" eins og alla hina, hehe, trixið? Ég hugsaði bara um Maríu Rún þegar ég horfði í linsuna ;)

Já, og í dag var síðasti sjéns að skrá sig á árshátíðina í vinnunni. Ég sló til og bókaði okkur Leif. Árshátíðin verður í Ljubliana (Slóveníu) í ár, einhvern tímann í lok nóvember, krosslegg bara fingur um að það sé ekki of nálægt einhverjum prófum eða verkefnum í skólanum :P Það verður (vonandi) gaman fyrir okkur að komast eitthvað bara við tvö, spurning hverjum maður á að treysta fyrir litlu rúsínunni yfir heila helgi... guð, ég tími varla að skilja hana eftir, kannski ég reyni að pota henni með sem handfarangri!

Gréta.

þriðjudagur, október 04, 2005

Myndatökur

Mér líst ekkert á þetta, það er starfsmannamyndataka núna á fimmtudaginn hjá mér. Ég er í svakalegu óstuði hvað það varðar þessa dagana. Var að spá að ég á ekki einu sinni neitt nógu skrifstofulegt til að vera í á myndinni. Verð að fá Elísu með mér á verslið á morgun, hún er persónulegi fataráðgjafinn minn :)

Annars er þetta bara róleg vika þannig séð, ætla auðvitað að vera dugleg að lesa, fyrsta prófið mitt er þarnæsta laugardag :( Guð minn einasti hvað ég verð fegin þegar þessu skólastússi lýkur, alveg að verða búin á því hérna. Mig langar bara að fara að geta lesið bækur sem fjalla ekki endilega um fjármál og endurskoðun og mig langar að geta verið að húsmæðrast um helgar en ekki að gera einhver skólaverkefni...

Jæja, farin að lesa.
Gréta.

sunnudagur, október 02, 2005

Helgin

Á föstudaginn fór Leifur aðeins út með vinum sínum. Sem er svosem ekki í frásögur færandi nema að ég var heima á meðan og átti erfitt með að fara að sofa þó ég væri orðin þreytt. Fór loksins í bólið um 2 leitið og vaknaði síðan aftur síðar um nóttina við það að Leifur kom heim og þá var ég andvaka alveg til hálf 7 um morguninn :( Ég var komin með áhyggjur af því hvað ég væri með miklar áhyggjur... þess vegna gat ég ekki sofnað.

Svo í gær mundi ég eftir smá ráði frá Bjarna bró um það að maður ætti að gera eitthvað fyrir sig þegar manni líður illa eins og mér leið í gær, leið hálf illa undan öllum þessum áhyggjum og streitu. Þannig að ég fór í WorldClass til að hlaupa aðeins og pantaði mér tíma á hárstofunni í leiðinni í strýpur. Ég hálf sá eftir því um leið og ég settist í stólinn. Ég bað um dáldið mikið af strýpum og hárgaurinn sagði bara "ekkert mál" og tók til minnsta lokk sem ég hef á æfi minni séð, örugglega ekki nema 6 hár, skipti þeim upp, 3 undir álpappírinn og 3 ofan á og byrjaði að smyrja lit á hárin... "Díses, þetta á eftir að taka sinn tíma" hugsaði ég og já, rúmlega 190 mínútum síðar hljóp ég alveg út úr Classanum og keyrði eins og mófó heim því þá var klukkan orðin 18:00 og við Leifur áttum að mæta á árshátíð Samskipa um kl.19:00. Great!

Þetta hafðist þó allt saman og við keyrðum Maríu Rún til ömmu Eyglóar í pössun um hálf 8 og fórum síðan í salinn í Gullhömrum í Grafarholtinu þar sem árshátíðin var. Rúmlega 400 manna partý og ég þekkti svona 3 á svæðinu, Leif, Rúnar frænda og Lóu. En svo kannaðist ég líka við 4 aðra þannig að þetta var bara fínt. Maturinn var vel heppnaður og skemmtiatriðin voru ekki af verri endanum þannig að ég skemmti mér alveg stórvel. Og annað hvort er ég algjör hænuhaus eða að þeir voru með 70% vodga á barnum, ég þurfti alla vegana ekki að kaupa mér nema einn kockteil allt kvöldið :)

Gréta - Alltaf að spara!