laugardagur, október 15, 2005

Fyrsta tönnin komin!

Ég skildi ekkert í því hvað María Rún var pirruð í dag þegar ég var að reyna að fá hana til að taka smá eftirmiðdagsblund. Óánægjuvæl alveg út í eitt og þá tók ég eftir henni, pínku ponsu tönnsla að gægjast upp í neðri gómnum :) Újé, beibí, 5 mánaða þegar fyrsta tönnin kemur. Ég hljóp beint fram og náði í Bonjellað og smurði hressilega á þetta, svo sofnaði hún loksins. Svo fékk hún auðvitað smá tannfé í baukinn, spurning hvort maður þurfi að kaupa tannbursta strax?

Annars þá leið mér eins og krypplingnum frá Notredam þegar ég vaknaði í morgun til að fara í prófið :( Almáttugur, ég var alveg búin á því, var að lesa til 2 í nótt og vaknaði snemma til að kíkja aðeins meira á efnið. Ég held mér hafi gengið vel í prófinu, en þori ekki að pæla of mikið í því, þessi kennari er svo skrítinn. Ég hef áður tekið próf hjá honum og þá fannst mér ég ganga þvílíkt vel en fékk svo bara 6,5 í einkunn sem er alveg ömurleg einkunn í mínum huga.

Svo er þessi kennari eitthvað svo skrítinn, t.d. í morgun, alveg typical fyrir þennan mann. Við tókum prófið á tölvu og allt í lagi með það, nema að það hafði gleymst að setja prófið inn á tölvuaðganginn okkar. Og þá ætlaði kennarinn að leysa málið með því að ná í það á diskettu og hlaupa á milli 40 manns og setja inn á tölvurnar. Sem betur fer benti einn nemandinn honum á tæknina, það væri nú bara hægt að setja prófið á netið og veita okkur þannig aðgang öllum í einu að prófinu. Kennslan hjá honum er líka í svipuðum dúr, hann er að reyna að útskýra eitthvað og fer alveg út og suður í einhverjum dæmum og sögum um hitt og þetta og svo er bara engin niðurstaða í lokin. Ég held að það sé bara af því að þá er hann búinn að gleyma því sjálfur um hvað hann var eiginlega að tala... æj, ég nenni ekki að pæla í þessu.

En þetta próf markaði ákveðin tímamót hjá mér :) Núna, eftir hartnær 20 ára samfellda skólagöngu frá því ég byrjaði í gamla góða Grundó á Akranesi og fram til dagsins í dag, er loksins hægt að telja þá áfanga sem ég á eftir að ljúka á fingrum annarrar handar! Vuhú, þessu er loksins að fara að ljúka, I can finally see the last hilltop. Skólagangan er svona eins og fjallganga, alla vegana hjá mér, alltaf þegar ég hef verið komin að endapunkti hef ég séð nýtt markmið til að stefna á aðeins lengra í burtu, en núna er þetta komið gott, ég ætla að geyma læknisfræðina, lögfræðina og sálfræðina til betri tíma, ég meina maður verður að hafa eitthvað að gera í ellinni :P

Gréta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home