fimmtudagur, október 20, 2005

Sparnaður

Halló,

bara svona að láta vita að ég er enn á lífi :) Er að reyna að undirbúa mig fyrir þetta blessaða skattapróf núna á laugardaginn, veit ekki hvernig það á eftir að fara :( Sem betur fer geta tengdó verið með Maríu Rún alveg eftir hádegi þessa dagana, totally savin' my ass, svo ekki sé sterkara til orða tekið.

En með sparnaðinn minn og fjárhagsnámskeiðið sem ég tók núna í haust, þá finnst mér eins og fólk sé eitthvað að misskilja mig og hlæja að mér þegar ég segist vera að gera fínt í íbúðinni minni og já, bara svona yfirhöfuð að gera eitthvað fyrir mig eða fjölskylduna (alltaf verið að spyrja "hva, eruð þið ekki að spara?"). Svo núna ætla ég að útskýra hvað sparnaður er í mínum huga:

Framtíðarsparnaður = viðbótarlífeyrissparnaður: Algjört þarfaþing hvers einstaklings sem ætlar mögulega að geta leyft sér að hafa það gott í ellinni. Að sjálfsögðu erum við með svoleiðis.

Nútíðarsparnaður = 10% af launum hvers mánaðar. Það er það sem ég legg til hliðar í hverjum mánuði, sama hversu mikil eða lítil laun ég fæ, minnst voru það ca. 7.000 krónur núna í sumar þegar ég var í fæðingarorlofinu. Sumum finnst ekki taka því að spara 7.000 krónur, en ég spara bara 10% no matter what, þá "gleymist" það ekkert. Öllu öðru eyði ég bara og geri það með bros á vör, borga reikninga, leigu, mat og svo aðra neyslu sem við Leifur viljum veita okkur.

Þetta er það sem ég kalla að spara, svo er hægt að vera "hagsýnn" líka, t.d. versla í Bónus frekar en Nóatúni og svona. Ég reyni oftast að vera hagsýn en nenni því ekki alltaf, t.d. með bensínkaup, mér er alveg sama hvar er ódýrast, ég fer alltaf bara á "mína stöð". Það er líka sparnaður fólginn í því fyrir okkur að vera að leigja, því miðað við þá leigu sem við þurfum að borga og svo þær upphæðir sem við myndum þurfa að punga út fyrir 20.000.000 króna íbúðarlán í hverjum mánuði, þá erum við að spara okkur eina milljón krónur næstu 3 árin með því að halda áfram að leigja OG safna okkur pening á sama tíma.

Fólk heldur oft að það sé ódýrara að kaupa en að leigja, það fer auðvitað dáldið eftir því um hvaða tölur er verið að tala. Í okkar dæmi er því alveg öfugt farið, það að leigja og leggja fyrir er ódýrara fyrir okkur. Auðvitað gengur það hægt, en sú eign sem þó safnast upp safnast hraðar heldur en eignamyndunin væri í gegnum lánið ;) Þannig að ég hvet alla til að reikna nú dæmið alveg til enda áður en þeir fara að kaupa.

Þetta var sparnaðarpistill dagsins.

Lifið heil,
Gréta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home