Lausnin
Jæja, þá er kvennafrídagurinn afstaðinn og búið að tala við fullt af konum um jafnréttismál á milli kynjanna í fréttum undanfarna daga og finnst mér eins og áherslan hafi verið nokkuð mikil á launamun kynjanna. Að sjálfsögðu á að borga sömu laun fyrir sömu störf, það er ekki spurningin! eins og Raggi Reyk mynd orða það. Ég hvet konur til að spyrja alveg hiklaust í starfsviðtölum hvort starfsmannastjórinn (eða sá aðili sem tekur mann í viðtal) geti með góðri samvisku sagt manni hvort þetta séu sömu laun og karlmönnum eru boðin. Það hefur ekki verið hikað við það að spyrja mig um barnamál og neysluvenjur varðandi áfengi og tóbak í starfsviðtölum (nokkuð sem má ekki) og þá finnst mér bara allt í lagi að konur spyrji að þessu á móti án þess að vera feimnar við það. Maður verður að muna það að það er enginn spenntur fyrir því að gefa manni meiri pening en á þarf að halda og oft er fyrsta boð alls ekki það hæsta sem manni býðst, vera harðar stelpur!En svo var líka rætt við fólk í týpískum láglaunastörfum, eins og leiðbeinendur á leikskóla. Það þýðir varla að bera sig saman við karlalaun þar, það eru nánast engir karlmenn. Og því miður er það þannig að leikskólastörf eru dáldið útsett fyrir það að vera láglaunastöður, ekki af því að það eru bara konur að vinna þarna, heldur líka út af því að launagreiðendurnir (þ.e. foreldrar) eru oft á tíðum ungt fólk með lítið á milli handanna og alls ekki færir um að borga mikið meira en nú þegar þarf að borga. Og ríkið getur því miður ekki dekkað mismuninn nógu vel (að því er virðist), þannig að þetta lítur út fyrir að vera vandamál í ákveðnum vítahring.
Allir eru nokkuð sammála um að ummönnunarstörf almennt séu lágt launuð og starfsfólkið eigi alveg skilið hærri laun, þetta gildir nánast um allar stöður sem snúa að ummönnun annarra einstaklinga, börn, gamalmenni, fatlaða einstaklinga, sjúklinga og já, örugglega einhver fleiri tilvik sem ég er að gleyma. En það þýðir ekki bara að benda á vandamálin, það verður að hugsa í lausnum. Og ég er með hugmynd að einni lausn sem mér finnst ekki svo galin: Umönnunarafsláttur. Sbr. sjómannaafsláttur. Þannig myndu allir sem vinna við einhvers konar ummönnun á öðru fólki, hvaða nafni sem það nefnist (einhver skilgreindur listi frá einhverjum ráðherra) vera með sams konar afslátt og sjómenn. Það myndi þýða að manneskja með 150.000 króna mánaðarlaun borgaði því sem næst enga skatta (innan við 3.000 krónur á meðalmánuði). Þetta myndi umsvifalaust hækka ráðstöfunartekjur þessa fólks án þess að einhver þyrfti að láta meiri pening út og sennilega útrýma að einhverju leyti þeirri manneklu sem er á svona vinnustöðum í dag.
Bara svona smá hugstrumpur...
Gréta.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home