Slömmið skreytt
Jæja, loksins komin Þorláksmessa. Ég byrja aldrei að þrífa fyrir jólin fyrr en á Þorláksmessu. Hljómar kannski eins og ég nenni minnst í heimi að þrífa, en ástæðan er nú bara sú að ég hef alltaf verið í prófum alveg til 20. desember og hef þá notað dagana fram að 23. desember til að klára að græja jólakort og -gjafir, finnst minna stressandi þó það eigi eftir að skúra heima.Og í morgun vaknaði ég og byrjaði að þrífa. Almáttugur, rifjaðist þá upp fyrir mér að ég hafði sleppt nokkrum jólahreingerningar stöðum í fyrra út af óléttunni, þannig að við vorum að tala um tveggja ára uppsafnað ryk og önnur óhreinindi. Ég held ég ætli ekki að spilla matarlystinni hjá fólki fyrir hátíðarnar með því að lýsa því í smáatriðum hvernig eldhúsið var tæklað. Það er sko engin vifta hjá okkur þannig að öll gufa fer bara einhvern veginn út um allt og allt ryk festist extra vel í eldhúsglugganum, auk þess sem ég er alltaf með rifu á glugganum til að hleypa gufunni út, en í staðinn kemur þá inn mengun af umferðinni úti. Það dugði ekkert minna en stálull, hreingerningarsvampur og hreint Ajax í þetta.
En jæja, eitt af því sem er gott við að búa í lítilli íbúð er að það tekur ekki langan tíma að þrífa. Ég byrjaði um 8 leytið í morgun og var nánast búin um 3 leytið. Erum reyndar ekki búin að setja upp tréð, þarf að hliðra eitthvað til í stofunni til að koma því fyrir. Ég er einmitt að skrópa í skötuveislu hjá Svenna frænda núna af því að allt er á haus. Sérstaklega inni í eldhúsi, alveg merkilegt, en við vorum að fá nýjan ísskáp í dag :) Þess vegna er maturinn út um allt.
Stundum finnst mér eins og ég sé eitthvað öfga óheppin alltaf. Það kannast nú margir við það hvað það er pirrandi að lenda í því að læsa bíllyklana inni í bílnum. Tómt vesen. Nú jæja, í gær lenti ég í því að læsa allan bílinn eins og hann leggur sig inni - í bílastæðahúsi. Ég fór út að borða með Þóru og Elísu og lagði bílnum í þetta fína bílastæðahús á meðan. Svo kom ég aftur út og bara, hey, búið að loka húsinu!? Helló, anybody there??? Nei, nei, bíllinn þurfti bara að vera þarna (í góðu yfirlæti) í nótt. Ég var alveg á tauginni, bjóst kannski við að bíllinn yrði dreginn í burtu eða ég fengi sekt fyrir að hafa hann þarna inni en svo var sem betur fer ekki :) Hey, ég þurfti alla vegana ekki að skafa í morgun!
Ég ætla núna að fara í smá jólafrí, blogga kannski á milli jóla og nýárs, ef ég nenni. Ég óska öllum gleðilegra jóla og munið að ganga hægt um gleðinnar dyr, mikið salt fer illa í skrokkinn. Bara vera dugleg að drekka vatn og borða ávexti, t.d. mandarínur og þá verður þetta fínt! Já, talandi um mandarínur, ég keypti kassa af þeim í Hagkaupum um daginn og henti honum eftir fyrstu mandarínuna. Það voru 23 steinar í henni! Það var varla pláss fyrir mandarínu inn í skrælinu, það voru svo margir steinar. Skandall, alveg glatað! Þannig að það eru mandarínulaus jól á mínum bæ í ár :)
Gleðilega hátíð,
Gréta.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home