þriðjudagur, desember 20, 2005

Jólafrí

Jæja, þá er ein strembnasta prófatörn sem ég hef tekið yfirstaðin og ég er komin í smá jólafrí :) Ég get ekki sagt að ég eigi von á glæsilegum einkunnum fyrir þessi tvö próf sem ég var að taka. Allan tímann sem ég var að lesa fyrir prófin einkenndust hugsanir mínar af setningum eins og "var þetta kennt í námskeiðinu?" og "eigum við að vera búin að læra þetta?... merkilegt". Og svo kannski sama dag og prófið er, svona klukkutíma og 17 mínútum fyrir próf kemur "eigum við að vera búin að læra um innra virði valréttasamninga!? Hólý mólí". Þannig að já, þið sjáið heildarmyndina á þessu.

Ég skil núna betur afhverju konur taka oft ekki nema eitt námskeið önnina eftir barnseignir, það er eiginlega bara of erfitt. Það er búið að mæða mjög mikið á fjölskyldunni að ég sé í 80% námi, 100% móðurhlutverki, 30% vinnu og að reyna að sinna áhugamáli mínu um líkamsrækt allt á sama tíma. Mæli eiginlega ekkert með því sko. En svona er þetta, ég er komin með of mikinn námsleiða til að reyna ekki við það að tækla 4 námskeið þessa önn, sem betur fer er þetta búið núna og ég legg það í hendur almættisins að kennararnir séu í góðri jólastemmingu við yfirferð prófanna, skemmir ekki ef þeir væru nú kannski með smá jólaglögg sér í hönd við verkið...

Annars þá á hann Kolbeinn Tumi 1 árs afmæli í dag! Vííí, til hamingju með það "litli" kall. Hann er nú ekkert lítill lengur, er óðum að breytast úr krúttlegu ungabarni í stálpaðan krakka. En það er bara betra, þá er hægt að gera meira með honum :) Því miður komumst við ekki í afmælið í dag því hún María Rún tók upp á því að fá hita í nótt og liggur núna í veikindum. Ekki gott mál, samt lán í óláni að þetta gerðist í nótt en ekki síðustu nótt, þá hefði ég kannski ekki komist í prófið í gær.

Verst að ég hefði þurft að komast með jólakortin í póst í dag, redda síðustu jólagjöfinni og afmælisgjöf fyrir Kolbein. Talandi um jólagjafir, ég hélt ég myndi springa úr pirringi í gær. Eins og ég ritaði fyrir nokkru komst ég að því að Leifur vildi ekki heilsukodda í jólagjöf. Ég keypti því handa honum skó. En það er ekkert gaman að fá skó því maður þarf að máta þá = hann veit hvað hann fær. Þannig að ég keypti íþróttatösku líka til að gefa honum frá Maríu. Svaka stór og spennandi pakki... nei, nei, kemur gaurinn ekki heim úr vinnunni í gær með íþróttatösku merkta Samskipum. Jólagjöf frá vinnustaðnum... Hvernig er þetta hægt!? Ég er búin að ætla að gefa honum nýja tösku ógeðslega lengi og svo loksins þegar maður lætur verða af þessu fær hann endilega tösku frá einhverjum öðrum líka... Ég varð svo fúl að ég sagði honum að ég ætlaði að skipta þessari tösku og kaupa eitthvað handa sjálfri mér, þýðir ekkert að finna eitthvað fyrir hann. Síðasta hálmstráið núna er kannski að kaupa borvél, veit hann langar í svoleiðis líka, kannski öruggara (og hagkvæmara) að bíða bara eftir útsölunum í janúar :)

Jæja, farin að undirbúa jólin.
Gréta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home