sunnudagur, nóvember 27, 2005

Fyrsti í aðventu

Já, spádómskertið í dag er það ekki? Ég leit inn í geymslu í morgun, ætlaði að svipast um eftir þessum blessaða kransi sem ég föndraði í fyrra. Ég segi nú ekki annað en að ég var heppin að ná að loka hurðinni aftur áður en allt draslið hrundi yfir mig. Nennti svo ekki að pæla meira í því af því að ég var ógeðslega ósofin eftir nóttina, María Rún þurfti endilega að fá einhverja pest í sig í nótt. Svo kom læknir og kíkti á hana, sem betur fer er þetta ekkert alvarlegt og ætti að jafna sig á ca. 3 sólarhringum.

Jæja, svo sváfum við fjölskyldan bara til hálf fjögur í dag, lazy sunday fýlingur í gangi. Svo hundskaðist ég á lappir og skellti mér í gymmið. Þegar ég kom aftur heim varð ég nú bara steinhissa svo ekki sé meira sagt. Leifur (og María) voru búin að skreyta allt og finna kransinn :) Oh, en kósý, við gátum kveikt á kertinu yfir kvöldmatnum.

Annars get ég ekki sagt annað en að þessi dagur hafi verið pínu vonbrigði fyrir mig, ég veit ekki um neinn sem hélt aðventukaffi í dag! Hvað er með það, er það bara orðið dautt dæmi að fólk gefi sér tíma í að hittast yfir aðventukaffi og fá sér nokkrar smáar og kakó með?? Er svona svakalega mikið að gera hjá öllum að undirbúa jólin?
:( Þvílíkt fúlt. Reyndar voru dáldið margir sem ég þekki löglega afsakaðir fyrir að halda ekki aðventukaffi, t.d. mamma og pabbi, þau eru ekki beint með eldhús í augnablikinu og tengdamamma er að fara til USA á morgun... Jæja, svona er þetta.

Já, eitt í viðbót, ég er að spá í að flytja bloggið mitt alfarið yfir á www.123.is þar sem myndaalbúmið er. Ég er bara ekki alveg búin að gefa mér tíma í það, ætli það verði ekki flutningur á milli jóla og nýárs :) (eða snemma í janúar).

Gréta.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Á símanum

Jæja, er á símanum í vinnunni í dag! :) Það er sko árshátíð hjá vinnunni erlendis og þá vantar í afleysingar á símann og ég tek vaktina fyrir hádegi í dag. Dáldið stressandi, týndi t.d. Stefáni Svavars hérna í símkerfinu áðan, ekki gott mál. Fann hann sem betur fer aftur með því að hamast á öllum tökkunum á lyklaborðinu :D

Já, við hættum við að fara í ferðina, gat ekki hugsað mér að fara frá Maríu Rún yfir alveg heila helgi, mér finnst 4 dagar dáldið too much á meðan hún er svona lítil :) Talandi um Maríu Rún þá setti ég inn nokkrar myndir í gær á myndasvæðið (sjá link hægra megin). Ég lofa að reyna að vera duglegri að taka myndir af okkur Leifi líka, alltaf bara barnið á myndunum :P Svona er þetta með fyrsta barn, til alveg óteljandi myndir og svo þegar barn nr. 2 kemur þá er bara eins og það sé ekki til, engar myndir teknar af því...

Ég er endanlega búin að sjá það að Leifur er með skrítnari mönnum sem ég þekki. Núna í fyrradag eldaði ég grýtu, svosem ekkert spes við það, hafði hvítlauksbrauð með en það var bara til hálft brauð. Svo ég ákvað að vera svaka góð við kallinn og skammtaði honum góða hlutann af hvítlauksbrauðinu og borðaði sjálf endann. Svo þegar hann kom heim úr vinnunni, úrvinda af þreytu eftir 13 tíma gámaviðgerðir þá fékk hann sér hakkið en skildi brauðið eftir. Svo þegar ég fór að spyrja hann út í brauðið sagði hann að honum fyndist endarnir bestir og langaði ekki í miðjuna! Hverjum finnst endinn góður á hvítlauksbrauði!? Ekkert smjör, bara viðbrennd skorpa!

Og svo í gær, þá skipti ég á koddunum okkar. Minn koddi er eitthvað svaka dæmi, heilsukoddi úr Betra bak upp á 8.000 kall eða eitthvað. Hans koddi er svona gervi-heilsukoddi úr svampi keyptur á 500 kall í Rúmfatalagernum. Ég ákvað að skipta til að láta hann prófa koddann minn, ætlaði að kaupa svoleiðis handa honum í jólagjöf. Nei, nei, hann bara "hey, má ég fá minn kodda, þessi er eitthvað svo ómögulegur". Þar fór sú hugmynd... þarf að finna eitthvað annað.

Gréta - með heilann í bleyti.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Peninga meninga!

Var að lesa Blaðið áðan og þar var tvennt sem vakti sérstaka athygli hjá mér. Annarsvegar grein um "jólympíuleikana" árlegu og hins vegar ábending um það að stéttarfélög bjóða mörg hver upp á styrk til félagsmanna sinna vegna líkamsræktar. Ég hringdi beint í mitt félag til að tjékka stöðuna og jú, jú, ég á bara inni heilar 9.400 krónur! Það munar nú um þann afslátt í gymminu, ætla beint í það mál á morgun að sækja um endurgreiðslu :)

Og svo nýyrðið jólympíuleikarnir - keppni í jólahaldi, algjör snilld :D Undanfarið hef ég heyrt í útvarpi, séð viðtöl í sjónvarpi og núna greinar í blöðum um það hvað jólin geta farið illa í fólk. Fjölskyldur upp til hópa algjörlega að setja sig á hausinn og allt í uppnámi yfir jólunum... ekki gott mál. Hugtakið "jólin eru hátíð barnanna" hefur alltaf haft þá merkingu hjá mér að þá eigi fjölskyldan að vera saman, staldra við og líta yfir farinn veg á árinu, þakka fyrir það liðna og setja sér göfug markmið fyrir framtíðina. Það hefur ekki þá merkingu í mínum huga að setja sig á hausinn við það að slá í gegn hjá öllum með því að vera með flottustu gjafirnar, skrautið eða steikurnar, nei, nei, ég nenni því sko ekki.

Lykillinn að litlu stressi er að skipuleggja sig vel, þess vegna pantaði ég nánast allar jólagjafirnar á netinu einhvern tímann í október, nenni ekki að vera í einhverjum ruðningi í Kringlunni að leita "bara að einhverju til að komast aftur heim". Maður nýtur sín ekkert. Svo er ég í skóla, fullkomin afsökun til að dissa jólabaksturinn! Enda eru tilbúnu kökurnar frá Jóa Fel alveg að gera það gott á mínu heimili, til hvers að reyna að keppa við meistarann? Ég ætla ekki að baka aftur fyrir jólin fyrr en María Rún er orðin nógu gömul til að baka með mér, þá verður svona girly dagur hjá okkur og við bökum saman :)

Jæja, vildi bara benda á þessi tvö atriði, vona að flestir geti nú fagnað jólunum en þurfi ekki að sligast eitthvað undan þeim. Bara eyða þessari stuttu helgi sem jólin verða heima á náttfötunum að horfa á vidjó eða spila og tala saman, það er alveg nógu mikið að gera hjá fólki hvers dags þó það þurfi ekki allt að vera á fullu spani líka á jólunum...

Gréta.

mánudagur, nóvember 21, 2005

Jólaseríur

Ég er farin að sjá jólaseríur á stangli um bæinn, greinilegt að sumir ætla að vera snemma í þessu í ár. Persónulega finnst mér aðventan samt alltaf vera þau tímamörk sem notast ætti við hvað varðar jólaskraut. Ekki af því að þá er komin aðventa heldur meira af því að jólaskrautið verður bara allt orðið rykfallið loksins þegar jólin koma ef maður skreytir of snemma.

Hér á Sóleyjargötunni erum við t.d. enþá bara á þrífi-stiginu, eins og í fyrradag, þá tók ég mig til og þreif ískápinn og örbylgjuofninn. Kræst, dugði nú ekkert minna en stálull á þann pakka. Svo var Leifur að þrífa skápana að utan í dag. Við erum samt ekkert að stressa okkur á þessu, það verða alveg jól þó svo einhver hilla inn í geymslu verði ekki þurrkuð í tæka tíð.

Ég var nefninlega að pæla í því að framundan er mikill spenningur fyrir jólunum þegar María Rún fer að vaxa aðeins upp og átta sig á gangi mála. Þannig að við ætlum að nota tækifærið þessi jól og halda friðarjól í orðsins fyllstu merkingu. Það verður bara afslöppun og kósýheit á aðfangadag :) Förum samt auðvitað í möndlugrautinn hjá ömmu Eygló í hádeginu, megum ekki missa af því.

Já, annað í fréttum er að Leifur tók loksins eftir blómunum núna um helgina, rúmum 10 dögum eftir að ég umpottaði :) Alveg sko... Og svo er María Rún með þvílíka kvefið, stífluð alla vegana upp í heila, ég þurfti að vakna þrisvar í nótt til að hjálpa henni að losa stíflurnar, hún gat varla andað :( Einhver vírus í heimsókn hjá okkur þessa dagana...

Jæja, farin í skólann,
Gréta.

föstudagur, nóvember 18, 2005

Alltaf föstudagur

Það er bara alltaf föstudagur þessa dagana. Við fyrstu sýn gæti það hljómað mjög vel en það er samt ekki nógu gott, þetta þýðir bara að dagarnir eru að rjúka frá mér og alltaf styttist í prófin :( Nú, að sjálfsögðu þýðir það að ég er komin með streytu enn einu sinni. Ég held ég þurfi að fara á Reykjarlund þegar þetta skóladót er loksins búið.

Super nanny þátturinn núna síðast var góður. Þar var frk. Jó að kenna foreldrum að svæfa börnin sín, en María er einmitt eitthvað aldrei á þeim buxunum að fara að sofa. Þá er það víst oft þannig að börnin þurfa svona smá quality time með mömmu og pabba og verða mjög óörugg ef allur dagurinn líður án þess að það gerist. Þá getur verið erfitt að koma þeim í rúmið. Svo núna er búið að setja upp smá heimilisdagskrá hjá okkur þar sem það er útlistað hvenær María á mömmutíma, pabbatíma og svo fjölskyldutíma, t.d. á laugardögum, þá er rólótími :) Vona að það gangi upp, það er frekar þreytandi eins og í gær, þá var hún 95 mínútur að sofna, það segir sig sjálft að maður er hálf úrvinda eftir það og ég bara hafði ekki orku í að fara að byrja að læra kl.22.00 í gærkvöldi. Það er út af þessu sem mér finnst alltaf vera föstudagur...

Eitthvað meira í fréttum...? Nah, eiginlega ekki, frekar hversdagslegt umhverfi þessa dagana. Ég var eitthvað að pakka inn fleiri jólagjöfum í gær og komst að því að jóla-spirit stuðullinn hjá mér er nákvæmlega núll. Ég er í engu jólastuði, ekki einu sinni nálægt því. Það hvarflaði mas. að mér í gær að segja mig bara úr þjóðkirkjunni svo ég hefði löglega afsökun til að vera ekki að standa í þessu veseni alltaf :P En jæja, sjáum hvort eitthvað gerist eftir 19. desember, þá er síðasta prófið hjá mér.

Gréta - mygluð.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Sloppin

Jæja, einkunnin fyrir hræðilega skattaprófið kom í dag... ég náði :) Var mas. í topp 10, alltaf gott. Kjaftasögurnar um 50% fall reyndust ekki á rökum reistar, aðeins 10% nemenda náðu ekki.

Helgin sem leið var frekar stíf, djamm og útstáelsi alla dagana, þess vegna bloggaði ég ekkert í gær, leið eins og þá væri sunnudagur og var bara að jafna mig eftir helgina. Það var afmæli bæði föstudag og laugardag og svo föndurkvöld hjá okkur stelpunum á sunnudagskvöldið. Gaman að föndra, var alveg til miðnættis að klára öll jólakortin. Svo var bara rólegt sófakvöld í gærkvöldi og ég byrjaði aðeins að pakka inn jólagjöfunum :)

Bjarni bró og Anna Lára kíktu líka með Nóa og Kolbein á sunnudaginn og við fórum að gefa "öndunum" á tjörninni. Það var reyndar rigning og ekkert spennandi veður til að fara þannig séð, en þegar fólk kemur sér ferð í bæinn til að gefa öndunum þá fer maður ekkert að hætta við þó það komi nokkrir dropar! Sem betur fer, það hafði greinilega enginn nennt að koma að gefa allan daginn og þegar fuglarnir sáu okkur komu þeir alveg hlaupandi á móti okkur, hef nú aldrei orðið vitni að því áður. Svo löbbuðum við smá rúnt í bænum og Nói fékk kleinu á leiðinni til baka. Var enþá að dunda sér með kleinuna þegar við löbbuðum fram hjá tjörninni og þá kom alveg gæsahjörð aðvífandi til að fá bita af kleinunni, hehe, æj, það var svo krúttlegt að sjá Nóa hlaupa með svona 20 gæsir á eftir sér út af einni kleinu. Algjör dúlla.

Úff, ég verð að vera dugleg að læra í dag, lærði ekkert alla helgina (frekar en venjulega þrátt fyrir fögur fyrirheit á hverjum fimmtudegi) og svo nennti ég bara ómögulega að læra í gær :P (lazy crazy...)

Já, og svo er ég loksins farin að geta mætt aftur í gymmið, þvílíkur léttir :) Það jaðraði við að ég finndi bara fyrir innri frið og hamingju þegar ég komst loksins á brettið mitt í Classanum. Ég veit, ég á bágt, en það er hægt að venja sig á margt vitlausara en að hreyfa sig.

Jæja, farin að læra.
Gréta.

ps.
Loksins komnar nýjar myndir á myndasíðuna okkar (sjá link hægra megin á síðunni).

föstudagur, nóvember 11, 2005

Ekki gott

Ég fékk mér súkkulaði áðan í vinnunni. Oj, ekkert smá vont! Ég er búin að vera frekar dugleg undanfarið við að neita mér um nammi (því það er yfirleitt ekki mjög megrandi) og svo núna áðan þegar ég var búin að réttlæta það fyrir mér í svona 20 mínútur að það væri nú allt í lagi að fá sér eitt súkkó því það væri föstudagur og svakalega langt síðan síðast og svona... og þá bara ojjj, geðveikt vont, líkaminn alveg búinn að stilla sig inn á hollustuna, því miður eða sem betur fer. Þannig að núna er svona sterkasta stöffið sem ég þoli í súkkulaði geiranum Kókó mjólk, verð bara að halda mig við hana :)

Ég ætla að fara í gymmið á morgun, kannski á eftir líka, er alveg að verða viðþolslaus á þessu hreyfingarleysi :( Svo ætlar Elísa að æfa hjúkkutaktana og taka saumana fyrir mig á sunnudaginn, hún er nú alveg að verða búin með sjúkraliðann og kann þetta. Suss, það kostar næstum 3.000 kall að mæta til læknisins og láta gera þetta þar, ég held ég hafi nú ýmislegt þarfara við peningana mína að gera.

...eins og að kaupa mér skó, mig vantar orðið nýja götuskó. Var að sjá það núna í vikunni að sólinn á uppáhalds skónum mínum er farin að hanga eitthvað frá skónum, svona full rónalegt kannski. En góð nýting greinilega! Hver segir svo að ungt fólk í dag nýti ekki hlutina sína til fulls? eða er ég kannski eitthvað að misskilja þetta, er ekkert í ungt-fólk-í-dag-flokknum lengur :P

Gréta.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Blómin

Ég umpottaði blómin á heimilinu í dag. Ég held að þetta sé eina heimilið á landinu þar sem blómin minnka við hverja umpottun, en það gera birtuskilyrðin hérna, allt fer minnkandi og steindrepst yfirleitt yfir háveturinn. Leifur tók að sjálfsögðu ekki eftir neinu, jafnvel þó þessar aðgerðir hafi aukið birtuna í stofunni um tæplega 40%... karlmenn.

*andvarp* er frekar lítið búin að læra þessa viku, alls ekki gott. Komin með eina einkunn samt, svosem allt í læ, 7,5 fyrir reikningshald VI, en það eru nú skattskilin sem ég hugsa mest um. Það eru komnar sögur á kreik um að meðaleinkunnin hafi verið 5. Helmingurinn með 4 í einkunn og hinn með 6... Það er sennilega of seint núna að fara að leggjast á bæn með það :(

Ég var að horfa á Jóa fel elda áðan á Stöð 2. Óþolandi þáttur. Venjulegt fólk getur ekki einu sinni látið sig dreyma um það að geta eldað svona rétti, þannig að ég fór að hugsa hvort ég gæti ekki komist bara í mat hjá honum :) Hann hefur nú boðið til sín ákveðnum hópum í sumum þáttum. En svo fór ég að hugsa að fátæki námsmannahópurinn væri kannski helst til fjölmennur til að ég ætti sjéns, þannig að ég held bara áfram að láta mig dreyma. Og svo fór ég inn í eldhús að reyna að finna eitthvað að borða, og miðað við það sem ég sá í sjónvarpinu var bókstaflega ALLT heima hjá mér óspennandi, mú. Svo ég pantaði bara pizzu, var komin á barm þunglyndis anyway.

Jæja, best að fara að gúffa í sig ostaveislu, ummmm.
G.

mánudagur, nóvember 07, 2005

Tími til að svitna

Jæja, árlegt reality check og hjartaáfall í kjölfarið í gær. Var að fara yfir stöðuna hjá mér og sé að ég er alveg light years eftir á í lestri í skólanum, suss, eins gott að fara að bretta upp ermarnar, spenna upp augun og fara að lesa núna :( En það á örugglega eftir að verða allt í lagi þar sem María Rún er byrjuð hjá dagmömmunni, þá hef ég góðan tíma á mánudögum og þriðjudögum til að lesa.

Þessi helgi var alveg óvenju góð, ég fór á konukvöld á laugardaginn með Rakel frænku, þvílíkt fínn matur og skemmtilegar kynningar frá alls konar aðilum þarna, en Rakel var einmitt að kynna Artdeco förðunarvörurnar. Maður gat fengið að prófa "sársaukalausa" vaxmeðferð, ég ruddist auðvitað upp á svið og lét taka lubbann undir höndunum í burtu :) hehe, gleymdi einmitt að raka í síðustu viku, kom sér vel bara. Og já, alveg merkilegt þá var þetta bara nokkuð sársaukalaust eins og kynnirinn sagði, kannski ekki alveg tilfinningalaust, segi það ekki, en maður engdist ekkert um eftir á.

Svo í gær fór ég til Þóru að föndra jólakortin í ár. Æji, gerði bara 5 kort, það verður framhald næstu helgi heima hjá Elísu. Þá ætlar hún að baka köku og vera búin að hengja upp eins og eina eða tvær jólaseríur til að skapa jólastemmingu :) Gaman, gaman. Já, talandi um jólin þá ætla ég að tilkynna það hér með að okkur vantar EKKI föt á Maríu Rún í jólagjöf! Siggi bró og Edda komu í gær og lánuðu okkur dáldið af þeim fötum sem Anna Katrín á og er ekki enþá búin að vaxa upp í og það var svo svakalega stór bunki af fötum að ég þurfti að endurraða í öllum fatahirslum í húsinu. Þannig að já, no clothes needed :)

En nú er ég farin að læra,
Gréta.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Fyrsti dagurinn

...hjá dagmömmunum var í gær :) Þá fór María Rún til Súsý frænku og Möggu og var þar í heilan dag. Og ég fór í vinnuna í fyrsta sinn frá því fyrir páska og var í heilan dag líka. Úff, það tók á, svona um 2 leytið var ég farin að spá í hvernig fólk getur almennt unnið bara í alveg 8 tíma 5 daga vikunnar!? Allt vinnuþrek horfið hjá mér. Og þar sem ég drekk ekki kaffi leitaði ég í súkkulaði og önnur sætindi sem ég fann til að halda mér í sambandi, ekki mjög gott.

Það gekk nú betur hjá Maríu Rún, hún var bara í essinu sínu allan daginn og lék við allar sínar tær og fingur, hæst ánægð með lífið og tilveruna og nýtt hlutskipti. Ég þurfti að vera aðeins frameftir í vinnunni þannig að amma Eygló náði í hana til Súsý og var svo með hana til kl.18.00. Vá, hún hefur aldrei verið svona lengi í einu í pössun. Enda orðin dáldið þreytt þegar hún kom heim og steinsofnaði fyrir hálf 9! (það er sko snemmt á þessum bæ).

En svo hætti hún auðvitað við að vera góða barnið og vaknaði aftur um 11 og vildi koma fram og fá pela og svona. Ekkert sérstaklega vinsælt þar sem við vorum nú á leiðinni í háttinn sjálf.

Og núna er kominn dagmömmudagur nr.2 og ég er bara búin að pakka öllum áhyggjum varðandi það ofan í kassa og setja inn í geymslu (geymi þær þar í nokkur ár fyrir litla bróðir :) Ég hélt kannski að hún færi eitthvað að kvarta þegar hún fattaði að hún þyrfti að vera allan daginn í pössun, en nei, nei, það bara gekk fínt. Á reyndar eftir að sjá hvernig næsta vika þróast, börn byrja stundum að gráta á 3.-4. degi þegar þau fatta að það er eitthvað nýtt trend að myndast.

Ég trúi því varla að það sé strax kominn föstudagur, kannski af því að ég var bara að byrja að vinna í gær og finnst þá að það hafi verið mánudagur í gær... handy :) En jæja, best að fara að koma sér að verki, er að fara í einhverjar fiskatalningar í dag suður í Garði, gaman gaman.

G.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Ekki minn dagur

Ég væri að ljúga ef ég segði að þetta væri búinn að vera fínn dagur. Það er hvert áfallið búið að reka annað í dag. Byrjaði í hádeginu, þá átti ég tíma hjá húðsjúkdómalækni í aðgerð til að fjarlægja nokkra fæðingarbletti (3 stk). Og ég var svo mikil mús í mér að bæði hún og aðstoðarkonan þurftu að leggja sig alveg extra mikið fram við að halda mér rólegri. Og ég hugsaði bara með mér: "hvernig í #$&%/# fór ég að því að eiga barn!?!?" Þessi aðgerð tók allt í allt svona 16 mínútur, alveg frá því að ég fór úr fötunum og þar til ég var bara að reima skóna til að fara aftur heim. Nei, nei, var alveg stjörf allan tímann, en hey, svona þegar einhver skælbrosandi einstaklingur bíður hjá manni með hníf og ætlar að fara að skera eitthvað í mann er bara eðlilegt að svitna dáldið. Ég má ekki fara í gymmið næstu 10 daga, bömmer :(

Svo fór ég heim og var þar með Maríu í dag, allt gekk ágætlega þar til ég fór að laga kvöldmatinn. Þá ætlaði ég að gera flottan forrétt (rækjur, avokadó og spes sósa með) og hringdi í mömmu að fá uppskriftina. Chilli? Já, já, set einn svoleiðis út í. Hmmm, einhverjar hvítar baunir inn í þessu, ætli þær eigi að fara líka? Til að gera langa sögu stutta hélt ég að ég yrði ekki eldri þegar ég smakkaði sósuna. Mig sveið svo mikið að ég náði varla andanum, byrjaði að leka úr mér og þegar ég snýtti mér kom alveg blóð með :( Hræðilegt, var ekki undir 30 mínútum að jafna mig. Á meðan gat ég mjög illa sinnt Maríu og hún fór alveg að hágráta.

Svo var nú allt fallið í ljúfa löð og við bara að borða. En þá rekur Gréta punkinn yfir i-ið í dag með því að pota í augað á sér... með vísifingri sem er akkúrat puttinn sem ég var að nota til að rífa niður chilli-ið fyrr um kvöldið. Dear god, ég hélt ég myndi bara endanlega missa sjónina *andvarp*

En mér finnst þetta nú alveg qualify-a fyrir eins og einu ísblómi og jafnvel vídjó líka... Jæja, ætla að reyna að svæfa barnið fyrst, það verður ekki mikið lært í kvöld :P

Gréta - hrakfallabálkur

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

1 kg farið :)

1 gone, 3 to go! Vigtaði mig í morgun í gymminu og sá að 1 kíló af fjórum er farið. Juhú! Ég þakka það ötulli vatnsdrykkju undanfarna daga, alveg ótrúlegt hvað vatn getur gert mikið fyrir mann :)

Annars fékk ég nú hálfpartinn áfall í skólanum í morgun. Var þarna bara eins og venjulega, hálfsofandi að undirbúa mig undir að fara að glósa og fattaði þá þegar ég skrifaði dagsetninguna í bókina mína að það er kominn nóvember! Djí, it came early this year...

Já, ég veit, ég er old fashion þegar kemur að glósumálum, ég er alveg með laptop, en ég glósa samt ekki á tölvu heldur á blað með penna, þremur mismunandi litum til að vera nákvæm :) Æj, þetta er bara svona, old habits dót, nenni ekki að breyta neitt um stíl núna, á bara fjóra áfanga eftir og þá er ég útskrifuð.

Ég vil nota tækifærið og óska Evu Maríu og Steinþóri innilega til hamingju með litlu prinsessuna sem kom í heiminn núna á sunnudagsmorguninn. Hlakka til að sjá myndir og kíkja svo í heimsókn kannski líka, svona þegar traffíkin frá nánustu ættingjum fer aðeins að hjaðna.

Annars er ég nú farin að punkta niður nokkrar óskir um jólagjafir fyrir Maríu Rún, ég er alltaf svo snemma í jólagjöfunum, hef aldrei skilið fólk sem kaupir jólagjafir 23. og hvað þá 24. desember. Ég á bara eftir að kaupa 6 gjafir... tja, kannski eina fyrir Leif líka. Ókey, hérna er það sem Maríu Rún vantar:
Handklæði (með mynd eða húfu)
Samfellur (stærð 80 og yfir)
Náttföt (stærð 80 og yfir)
Koppur
Leikgrind á hjólum (svo hún geti farið í göngutúra)
Dúnsæng (þessi sem við erum með er lánssæng)
Snjóþota
Beisli
og svo kannski smá dót með hávaða til að æra mömmu sína og pabba :)

Annars er ég búin að ákveða að ég nenni ekki að baka fyrir jólin í ár. Hef alltaf verið voða húsmóðir í mér og gert 5-7 mis-heppnaðar sortir, en ég bara nenni því ekki núna, þetta er ömurlegt eldhús hérna með hundleiðinlegum bakstursofni þannig að ég ætla bara að fara í ránsferð til mömmu og tengdamömmu og fá kökur hjá þeim :) Þær eru með svo svakalega flotta ofna og baka líka bestu kökurnar.

Gréta - byrjuð að undirbúa jólin.