þriðjudagur, júní 28, 2005

Skírnin búin

Jæja, þá er skírnin afstaðin. Hún gekk alveg eins og í sögu og engar óheppilegar uppákomur áttu sér stað í miðri athöfn ;) María brosti mas. aðeins til prestsins í athöfninni, voða krúttlegt. Mamma og Helgi bróðir hans Leifs voru skírnarvottar.

Veislan var í Garðhúsum eftir athöfnina og ég held að við mamma höfum bara komið nokkuð vel út í skipulagi skreytinga og veitinga. Siggi bró var á myndavélinni og ég set inn það sem hann tók fljótlega, þarf að komast í vélina hans fyrst.

Mig langar að þakka öllum kærlega fyrir sem lögðu hönd á plóginn með veisluna, sérstaklega mömmu og tengdamömmu sem voru í eldhúsinu bara allan tímann að hita upp kaffi og brauðrétti og sjá um að halda veislunni gangandi. Pabbi var í forsvari við að útvega stóla og borð, tengdamamma gerði pönnsufjall og kókosköku, systur hans Leifs gerðu fullt af réttum og Bjarni og Anna Lára gerðu eitthvað svaka flott sem ég veit ekki einu sinni hvað heitir :P Tengdapabbi gerði líka núðlurétt fyrir þá sem vildu ekki bara kökur og það var slegist um þann rétt. Og síðast en ekki síst miklar þakkir til hans Helga fyrir skírnartertuna, sem var mjög góð. Marsípantertur eru stundum dáldið væmnar á bragðið en þessi var einmitt ekki þannig, mann langaði að klára kökuna *slef*

María fékk alveg ótrúlega mikið af gjöfum, við erum ekki einu sinni búin að opna þær allar, þurfum að taka þetta í smá skömmtum, en það eru nokkur sæt armbönd, hálsmen, föt og bangsar búnir að koma í ljós :) Að ógleymdum Georg sem borðar nú allt klink á heimilinu í öll mál...

Gréta.

mánudagur, júní 20, 2005

Innbrot

Úff, dagurinn í dag byrjaði ekki vel. Ég kom út hress og kát kl.5:45 í morgunn á leið í World Class og kem að bílnum okkar öllum opnum :( Fyrst hélt ég að við hefðum gleymt að læsa bílnum því það voru engin glerbrot inn í bílnum, en svo sá ég að hér hafði einhver "fagmaður" verið á ferð, því litla rúðan á afturhurðinni hafði verið spennt upp í heilu lagi og búið að leggja hana snyrtilega í aftursætið á bílnum.

*Andvarp* Þetta var auðvitað hundfúlt og mjög óþægileg tilfinning að lenda í þessu, en á sama tíma þakkaði maður sjálfum sér fyrir að hafa haft vit á því að geyma aldrei neitt merkilegt í bílnum. Reyndar var vagninn okkar enþá í bílnum frá því að ég var upp á Skaga um helgina, það hefði nú verið amk. 50.000 króna tjón að missa hann :(

En svona í alvöru talað, hvaða heilvita maður nennir að standa í því að brjótast inn í bíl með Aiwa græjum í? Enda kom á daginn að græjurnar voru enþá í bílnum :D Gaurinn hefur séð hvurslags drasl þetta var hjá okkur og ekki nennt að standa í þessu, þannig að það eina sem var tekið voru geisladiskar og eitthvað svoleiðis smotterí. Og viti menn, auðvitað er sjálfsábyrgðin hjá tryggingafélaginu akkúrat það tjón sem við urðum fyrir! Dæmigert. "Eins gott að vera tryggður" missti Leifur frekar kaldhæðnislega út úr sér niðri í Sjóvá í dag ;)

Það er ljós punktur í þessu öllu saman að við þurfum ekki að kaupa nýja rúðu (sem er dýr) og að Leifur kann auðvitað alveg að setja hana í (sem er líka dýrt að láta gera fyrir sig), þannig að við sluppum eins vel frá þessu innbroti og hægt var. En núna er semsagt enn einn Hagkaupspokinn kominn utan á bílinn hjá okkur :P Samtals 3 stk.

Aðrar fréttir eru þær að ég fór með Maríu í 2 mánaða skoðun í dag (orðin tveggja mánaða! Dear god). Hún kom vel út en var ekki búin að þyngjast jafn mikið og hún hefði átt að gera skv. kúrfunni, ég held að þar sé veikindunum um að kenna. En svo fórum við nú til ömmu Rúnu seinni partinn og henni fannst María alveg nógu feit! Mér fannst dáldið fyndið að heyra hana segja þetta, en ég held hún hafi auðvitað verið að meina í góðum barna-holdum.

Gréta - alltaf eitthvað á mánudögum.

sunnudagur, júní 19, 2005

17. júní

Jæja, þá er enn ein helgin afstaðin og verð ég að segja að þessi var alveg óvenju góð :) Reyndar ætlaði hún nú bara engan endi að taka, ég verð alltaf svo dagavillt á þriggja daga helgum... Á 17. júní var, eins og flestir tóku eftir, alveg einstaklega gott veður þannig að við ákváðum að rúlla einn hring í bænum með Maríu. Keyptum blöðru og allt! Svo var farið í grillveislu til Bjögga og á Batman seinna um kvöldið. María fékk að vera hjá ömmu og afa á meðan (foreldrum Leifs) og hún var algjör engill hjá þeim, svaf bara vært.

Á laugardaginn fórum við mæðgurnar svo upp á Skaga, aðeins að hitta Nóa og Kolbein :) Það var fínt, kíkti líka í heita pott með Þóru, alltaf mjög afslappandi að komast í svoleiðis. Ekkert smá flottur pottur sem mamma hennar á, ú jé. Og svo var bara heima-að-horfa-á-video-dagur í dag, 3 sófakartöflur í mestu makindum í allan dag.

En þessa vikuna kom smá bakslag í megrunina, í staðinn fyrir að missa hálft kíló þyngdist ég um hálft kíló :( Það var búið að ganga fínt alveg frá því ég byrjaði í byrjun maí (6 vikur) en núna fór allt í steik. Og þá er bara eitt að gera: seek professional help! Hringdi í Jonnu og fékk hjá henni Herbalife, ótrúlega gaman, hún gaf mér litla bók með þar sem maður skrifar niður matarræðið, hreyfingu og framfarir í málunum (mitti, mjaðmir og allt það). Og þeir sem þekkja mig vita nú að það er eins og að gefa litlu barni litabók að láta mig fá svona, ég á eftir að fylla hvern einasta reit í bókinni samviskusamlega út næstu 30 daga.

Veikindin hjá Maríu í byrjun síðustu viku spiluðu nú dáldið inn í það að ég missti tökin á megruninni, ég fór ekkert að versla og í 3 eða 4 daga var ekki til neitt af viti að borða. Það voru til 5 tegundir af morgunkorni en engin mjólk, fullt af kartöflum en hvorki fiskur né kjöt og eitthvað af áleggi en ekkert brauð. Semsagt, alveg svakalega mikið af engu. Og þegar maður er að reyna að létta sig skiptir miklu máli að borða rétt, þ.e. fá sér hollan morgunmat, borða skynsamlega yfir daginn og svo að fá sér eitthvað hollt í kvöldmatinn. Ekki bara grafa upp gamla kakósúpu og fá sér CocoaPuffs kúlur og eitthvað svona drasl. Þá verður maður nefninlega svo miklu svangari en ef maður borðar eitthvað hollt og gott. Því miður eða sem betur fer, þetta stendur allt og fellur með matarræðinu.

Þannig að núna verður bara keyrt á síðustu 5 kílóin sem ég þarf að losna við næstu 30 daga eða svo og Leifur ætlar að vera sérstakur styrktaraðili og tryggja að það séu alltaf til bananar og undanrenna fyrir Herbalife-ið :) Sjáum til hvort ég næ þessu takmarki.

Gréta.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Skírn framundan

Héðan af Sóleyjargötunni er allt gott að frétta. María er búin að ná sér og allt orðið eins og það á að vera :) Við fórum samt með hana á læknavaktina í gær, bara svona til öryggis. Læknirinn hlustaði hana og þreyfaði eftir einhverjum yfirþrýstingi á höfðinu. Svo tók hann upp tækið sem er notað til að athuga inn í eyrun og niður í háls. Engin eyrnabólga, gott mál, en svo þurfti að kíkja niður í háls. Og allt í einu virkuðu tækin eitthvað voðalega ofvaxin fyrir svona lítinn munn og það féll ekki beint í góðan jarðveg að hann skyldi troða frostpinnaspýtunni hálfpartinn ofan í kok til að sjá almennilega. Svo kom í ljós einhver roði í hálsinum þannig að læknirinn vildi endilega taka stroku til að athuga hvort þetta væru sýklar eða bakteríur... og það varð allt brjálað. Læknirinn var afgreiddur sem "vondi kallinn" og geðshræringin var svo mikil að María mátti ekki einu sinni sjá lækninn! En í ljós kom að þetta var bara einhver kvefvírus sem myndi ganga yfir og þetta er alveg yfirstaðið núna :)

Við mamma fórum aðeins í dag í Garðheima til að fá hugmyndir fyrir skírnina. Vá, við fórum í marga hringi. Fyrst vildi ég hafa svaka fallegt bleikt þema, búin að finna einhverjar servíettur til að prenta á og allt. En svo fannst mér það eitthvað svo ómögulegt því það voru allir bleikir litir svo eins þarna í Garðheimum. Þá kom í ljós að grænt er til í Garðheimum í öllum tónum, alveg æðislega sumarlegt, en við nánari umhugsun fannst okkur það of fermingarlegt og blár eða fjólublár kemur heldur
ekki til greina því það er svo strákalegt. Þá datt okkur í hug fallegt sumarþema með gulum, orange og ferskjulitum, en það voru ekki til neinar sítrónugular servíettur með mynstrinu sem ég var búin að velja. Þá þurftum við að hringja í Guðnýju frænku og athuga hvort hún gæti reddað þessum servíettum fyrir okkur í heildsölunni og hún sagði okkur að hún væri með servíettur frá þessari heildsölu í Húsgangalindinni. Þannig að við fórum þangað og núna er ég búin að velja einhverjar tropical servíettur með blómi á, voðalega sætar :) Ætla að bera þær undir Leif í kvöld til samþykktar.

...þannig að bara það að velja servíettur fyrir skírnarveisluna er búið að kosta ferðir á 3 staði og viðtal við 4 manneskjur, auk þess sem ekki er alveg búið að ákveða hvernig kertin eiga að vera... hvernig verður þetta ef maður skyldi einhvern tímann fá þá flugu í hausinn að gifta sig!? Ó mæ got, ég held að hugmyndin mín um að fara bara til Vegas og fá Elvis-Presley-Drive-through-wedding sé kannski ekkert svo slæm, myndi spara hellings vangaveltur og tilstand :D

Gréta - komin í skírnargírinn.

mánudagur, júní 13, 2005

Myndir

Hæ aftur,

setti inn myndir síðan við vorum í bústaðnum í byrjun júní :)

Slóðin er http://www.123.is/gretag/

Fyrstu veikindin :(

Í gær varð María veik í fyrsta sinn. Við Leifur skildum ekkert í því hvað hún var eitthvað önug allan daginn, bara grátandi yfir öllu. Svo fór þetta versnandi þegar leið á kvöldið og hún var svo með hita í nótt og alveg hágrátandi á ca. klukkutíma fresti. Ég fór út í apótek í morgun og keypti stíla. Eftir einn svoleiðis gat hún loksins sofnað (og við líka) og ég vona að hún sé aðeins betri núna :) Amk. fór hún ekki að gráta þegar hún vaknaði til að drekka áðan. En semsagt, þessi veikindi eru ástæða þess að ég gat ekki sett inn myndirnar í gær eins og ég ætlaði að gera. Set þær inn fljótlega.



En fyrir utan gærdaginn þá var helgin bara nokkuð góð. Við fórum í kvennahlaupið á laugardaginn og það var alveg æðislega gaman. Ég er með alveg dúndrandi harðsperrur í úlnliðunum, fattaði ekkert að það myndi taka dáldið á að vera með vagn á undan sér í heilan klukkutíma :)

Á laugardagskvöldið pössuðu amma Adda og afi Gunni á meðan við Leifur fórum aðeins út. Það kvöld gat afi Gunni fengið Maríu til að hlæja, fyrstur allra! Ótrúlega krúttlegt.

Gréta.

föstudagur, júní 10, 2005

7 vikur

Í gær varð María Rún 7 vikna gömul og mér finnst eins og það sé alveg svakalega mikið að gerast akkúrat núna. Í þessari viku fór hún allt í einu að halda haus, hjala, brosa og uppgötva á sér hendurnar! Alveg ótrúlegt :) Núna finnst mér hún vera orðin svo mikið barn, hætt að vera bara lítil dúkka sem getur ekki neitt. Já, og svo er líka eitt í viðbót með þessa viku, hún er farin að mótmæla því þegar hún á að fara að sofa á kvöldin. Jessörí, nóg að gera þessa dagana.

Á morgun förum við svo í kvennahlaupið ásamt ömmu Öddu og langömmu Dóru, verðum þarna fjórir ættliðir í góðum gír :) Við stefnum á 5 kílómetrana, má ekkert minna vera. Nema ef það verður leiðinlegt veður, þá fer maður bara minnsta hringinn :P

Annars vona ég að ég verði nú orðin eitthvað hressari á morgun, er búin að vera eins og undin tuska síðustu tvo daga eða svo. Hundleiðinlegt, hef litla matarlyst en reyni samt að borða svo mjólkin haldi sér, en það er búið að vera eitthvað lítið í brjóstunum hjá mér á kvöldin. Bobba ljósmóðir var reyndar búin að segja mér að börn tækju vaxtakippi á ca. 3 vikna fresti (síðsati vaxtakippur var í 2.-3. viku) og þá þurfa börn meira að drekka og mamman nær ekki að halda í við börnin með mjólkina. Þetta ætti að taka 2-3 daga að lagast ef ég er bara dugleg að borða og leggja barnið á brjóst. Samt alltaf leiðinlegt að vera slappur, ég fæ stundum svimaköst, finnst það nú ekki spennandi, sérstaklega þegar ég er að halda á Maríu þegar það gerist :( Ég er farin að taka vítamín til að reyna að verða hraustari.

Gréta.

ps. smá bið á myndunum, ætla að setja eitthvað inn núna á sunnudaginn :)

þriðjudagur, júní 07, 2005

Tími til að framkalla

Vá, ég var að fara yfir myndirnar okkar í gær og fattaði að ég hef ekkert látið framkalla síðan í janúar. Það kom á daginn að það eru rúmlega 50 myndir sem þarf að framkalla og ég ákvað að vera hagsýn húsmóðir og senda þær til USA í framköllun. Kostnaður við það (með sendingarkostnaði til Íslands) eru rúmar 800 ÍKR :) Cool.

Annars þá gleymdi ég að segja frá 6 vikna skoðuninni sem við fórum í síðasta fimmtudag. Það gekk allt ljómandi vel, María kom vel út og læknirinn hrósaði henni meira að segja sérstaklega fyrir að vera svona dugleg að reyna að halda haus, en það er bara alveg að verða komið hjá henni :) (Eðlilegur tími er allt fram á 3 mánaða aldur sagði læknirinn okkur).

Sumarbústaðaferðin var mjöööög fín, fengum æðislegt veður og allt var eins og best verður á kosið. Við vorum með ógeðslega mikið dót, samt reyndi ég að pakka niður bara því allra nauðsynlegasta, en vagninn hennar Maríu tók nánast all skottið og svo þurfti ömmustóllinn líka að koma með og alls konar svona stórt dót. Það hefði ekki komist svo mikið sem ein radísa í bílinn þegar við vorum tilbúin. Þannig að það var bara góð sardínu stemming í bílnum á leiðinni og mjög gott að ekki tekur nema 1,5 klst. að keyra að Bifröst :) Set inn myndir fljótlega!

Gréta.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Fæðingarorlof

Jæja, dáldið síðan maður skrifaði eitthvað síðast! En það er helst að frétta að við Leifur fórum í bíó í gær :) Siggi og Edda pössuðu á meðan og það gekk bara allt alveg eins og í sögu. Ég var samt í týpísku móðureðlisstresskasti allan tímann og var á mörkunum að halda söguþræði í myndinni. Tjékkaði símann minn á 5 mínútna fresti og hringdi tvisvar heim í hlénu :) Jæja, svona er þetta bara.

Annars er ég nú ekki hress þessa dagana með fæðingarorlofið okkar Leifs. Mér finnst þetta algjört rugl. Maður fær 80% af meðallaunum sl. 2 ára í laun á mánuði og það er svo langt frá því að vera 80% af þeim ráðstöfunartekjum sem við erum vön að hafa að við lentum bara í vandræðum núna um mánaðarmótin :( En sem betur fer vorum við "saved by the bell" eða saved by LÍN réttara sagt, þar sem þeir greiddu mér námslánin mín. En já, mér finnst þetta bara hræðilegt, það er nú ekki eins og útgjöldin hjá manni dragist eitthvað saman við það að bæta við einni manneskju á heimilið! Þetta var víst lengt úr 12 mánaða meðaltali í 24 mánuði á sínum tíma til að fá réttara meðaltal og koma í veg fyrir að fólk væri að svindla á kerfinu (með því að vinna alveg geðveikislega mikið eftir að óléttan væri orðin ljós). Ég segi nú bara að kerfið er að svindla á okkur með þessu útspili, ekki eru launin framreiknuð til dagsins í dag (þær upphæðir sem ná 24 mánuði aftur í tímann) og svo ef maður ætlar að eignast annað barn þá verður maður að bíða í 3 ár til að gamla fæðingarorlofið komi ekki inn í nýju útreikningana þannig að maður væri með 80% af 80% launum í orlof... Ég gæti fengið ofnæmiskast af pirringi.

Á morgun er sumarbústaðaferð :) vííí, gaman, gaman. Förum á Bifröst og verðum þar fram á sunnudag. Þannig að því miður kemst ég ekki í afmælið þitt Þóra mín, verð ekki í bænum. En við höldum bara aukaafmæli við tækifæri, kannski þegar Elísa kemur heim frá Norge :)

Jæja, ætla að fara að pakka niður. Góða helgi!