mánudagur, maí 23, 2005

From schwabs to abs :)

Jæja, ég er byrjuð að mæta í World Class aftur. Byrjaði á því að taka málin, svona rétt að athuga hvernig ég kem undan vetri ;) Og viti menn, þrátt fyrir þyngdaraukningu aldarinnar (26 kíló takk fyrir) þá eru ekki nema 6 alvöru auka kíló sem sitja eftir núna þegar mest öll einkenni óléttu eru að hverfa :) Það gefur svo sem auga leið að maginn á manni er dáldið koddalegur þessa dagana, mjööög mjúkur, en ég stefni að því að laga það á næstu 12 vikum.

Annars þá erum við að tapa okkur í fasteignadraumum þessa dagana, það verður nú að redda sér herbergi fyrir litlu prinsessuna! Við fundum einhverja blokkarholu upp í Grafarvogi og leist ægilega vel á þetta allt saman. Svo fór tengdapabbi með að skoða eignina og úthúðaði henni svo svakalega að við erum steinhætt við íbúðina... Æj, það er nú bara þannig að þegar maður býr í 72 ára gömlu húsi (með upprunarlegum gluggum og eldhúsinnréttingu og þar fram eftir götunum) þá er standardinn ekkert svo voðalega hár. Okkur fannst bara æðislegt að það væri tvöfalt gler í gluggunum og eitthvað svona, tókum ekkert eftir því að gólfdúkurinn var eitthvað lummó, svalirnar snúa í austur og að það er svakalega hljóðbært á milli íbúða. *andvarp*

En ég ætla að fara að manna mig upp í að setja inn fleiri myndir á þennan fína vef sem ég fékk aðgang að hjá Stíg, búin að taka smá hrúgu upp á síðkastið :)

Gréta.

föstudagur, maí 20, 2005

Áfram Ungverjaland!

Við horfðum á undankeppnina í gærkvöldi. Ég held að ég sleppi því að úthúða þessu Pétur Pan outfitti hennar Selmu, það er búið að segja allt sem segja þarf um það mál í öðrum fjölmiðlum. Hins vegar finnst mér þessi undankeppni hálf eyðileggja alvöru Eurovision keppnina. Núna er maður búinn að setja sig inn í 10 lög af hvað mörgum, 24? og þekkir þau aftur. Það var spilað eitthvað 15 sekúndna klipp af þeim lögum sem fara beint í aðalkeppnina og ég hugsaði bara "hvaða tað er nú þetta?" um flest lögin þar. Mér finnst þetta bara ekki gott mál... en ég held með Ungverjalandi á morgun, þeir voru flottir í gær.

En að öðrum málum, þá er María orðin 1 mánaða! Hjúkkan kom í dag og mældi hana, hún er búin að þyngjast um rúmt kíló frá fæðingu. María telst líka ekki lengur vera nýburi, bara orðin stór stelpa :) Reyndar finnst mér hún vera orðin svo svakalega stór að ég skil bara ekkert í því að hún sé ekki farin að labba...

Gaman að fylgjast með svona litlu kríli, hún er farin að móta smá persónuleika og tjáir sig ekki eingöngu með gráti (eins og ég hélt að öll smábörn gerðu). Reyndar hefur hún bara einu sinni grátið svona í alvörunni, þegar hún fékk einhvern magaverk eitt kvöldið. Annars tjáir hún sig með hjali, sýgur hendurnar þegar hún er svöng og gefur frá sér smá kvörtunartón ef það þarf að skipta um bleyju eða láta hana ropa. Mér finnst hún alveg súperklár að geta gefið okkur Leifi svona mismunandi merki, það er eins og hún viti að við séum algjörir byrjendur í foreldrahlutverkinu, hún er mjög þolinmóð við okkur :)

Gréta.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Rólegheit

Vá, eitt það skemmtilegasta við að vera í fæðingarorlofi er að maður veit aldrei hvaða dagur það er! Með eindæmum vandræðalegt stundum, eins og núna um síðustu helgi, ég fattaði það svona á laugardeginum að það væri hvítasunnuhelgin :) Og svo í dag, þegar Sóleyjarfjölskyldan fór saman í picknic upp í Heiðmörk, þá hélt ég að það væri sunnudagur...

Ah, picknic ferðin var góð, pínu rok, ekkert alvarlegt samt. Ótrúlega hressandi að fara svona út undir bert loft, sérstaklega þegar maður hangir mikið heima eins og ég geri þessa dagana.

Það bauðst hrúga af fólki til að passa Maríu :) Takk everybody, alveg innilega, gott að vita hverja maður má bögga með pössun í framtíðinni ;) En þetta fór nú þannig að við Leifur frestuðum því að fara út að borða því Leifur tók upp á því að fá hálsbólgu í fyrradag, þannig að það eru bara rólegheit í gangi. Svo fékk hann líka þá fínu hugmynd að grilla bara fyrir mig heima, það verður alveg spes laxagrill a la Lebbi *mmmm* Sennilega verður það bara núna á laugardaginn yfir Eurovisioninu, maður má nú ekki missa af því!

Gréta.

föstudagur, maí 13, 2005

Komin með dagmömmu!



Já, það hljómar kannski dáldið snemmt að vera komin með dagmömmu ekki nema 3 vikna gömul, en svona er markaðurinn í dag, þétt setið um dagmömmurnar. Við erum svo heppin að þekkja nokkrar góðar dagmömmur og svo vel vildi til að Súsý frænka (Leifs og Maríu) átti laust heilsdagspláss fyrir okkur frá og með 1. nóvember nk. :)

Annars þá vantar okkur pössun í nokkrar klst. í næstu viku. Þá eigum við Leifur 3 ára afmæli saman og ætluðum að fara út að borða. Þetta var planað með miklum fyrirvara en svo í gær þá tilkynnti barnapían (Siggi frændi og Edda) forföll vegna veikinda :( Það er nú ekkert mál að passa, það fylgja svo góðar leiðbeiningar með börnum nú til dags ;)

Gréta.

laugardagur, maí 07, 2005

Góðir hlutir gerast hægt

...mjööög hægt þessa dagana. En þar sem gamall skólafélagi minn úr Versló, hann Stígur, var svo rausnarlegur að bjóða okkur pláss á netinu fyrir myndir og svona, þá ákvað ég að reyna að setja inn aðeins fleiri myndir :) Slóðin er http://www.123.is/gretag og svo er valinn linkurinn "Myndaalbúm" (en það segir sig nú nokkuð sjálft :)

Svo kannski reyni ég að setja inn smá myndband líka, ef ég get fundið út hvernig ég á að koma upptökunum af camerunni yfir á stafrænt form.

En nú er mál að fara að kaupa afmælisgjöf handa Nóa frænda, hann er að verða 3 ára drengurinn!

Gréta.

fimmtudagur, maí 05, 2005

2 vikna í dag

María er orðin 2 vikna gömul og í dag þurfti ég að pakka niður öllum minnstu fötunum hennar :( Ég fékk nett þunglyndiskast yfir þessu, ég vil að hún verði litla rúsínan mín í amk. mánuð í viðbót! Ég skil ekki alveg þessar fatastærðarmerkingar á barnafötum, það þarf að fara að update-a þann pakka eitthvað. María telst örugglega ekkert vera eitthvað risa barn og samt er hún farin að nota "3-6 months" stærðir, þetta þykir mér undarlegt í meira lagi.

Það kom hjúkka í heimsókn til okkar í gær, ungbarnaeftirlitið. Hún var ánægð með það hvað María er að þyngjast vel, orðin 4 kg. rúmlega núna :) en hins vegar fannst henni það ábyrgðarleysi á hæsta stigi að ég skyldi ekki hafa verið heima þegar hún kom (ég hafði skroppið aðeins að útrétta). Hélt smá ræðu um brjóstin á mér, að það þyrfti að vera með ullarstykki yfir þeim ef ég færi út og að ég ætti að hvíla mig og svona. Ég lofaði bót og betrum :)

þriðjudagur, maí 03, 2005

María Rún

Litla skvísan er komin með nafn :) Eftir nokkuð miklar vangaveltur völdum við Leifur nafnið María Rún. María er valið úr Biblíunni eftir Maríu mey, guðmóður allra barna og Rún er í höfuðið á langömmu Rúnu, því hún hefur helgað líf sitt börnum og er líka sú manneskja sem var mér hvað kærust þegar ég var sjálf lítil stelpa (næst á eftir mömmu og pabba :) Það verður samt ekki skírn fyrr en í júní, meira um það síðar.

Fyrir utan nafngiftina þá er nú frekar lítið að frétta. Ég hef ekkert komist í tölvuna til að skrifa þar sem ég var að berjast við að lesa undir próf sem ég fór í í gærmorgun. Ég held ég hafi aldrei á ævinni haft jafn marga daga til að lesa og komist yfir jafn lítið af efni og ég gerði fyrir þetta próf. Ég er samt nokkuð bjartsýn á að vera í kringum 7 í einkunn, finnst það ágætlega sloppið miðað við barneign fyrir minna en 2 vikum síðan :) Veit ekki alveg hvort ég komist í hitt prófið sem er á þriðjudaginn í næstu viku, jeminn hvað það verður leiðinlegt að lesa undir sumarpróf :(

Jú, svo fór ég í yoga tíma í gær :) Það var svakalega hressandi, ég gat auðvitað liggur við ekki neitt, allir liðir frekar stífir og slappir eftir meðgönguna, en samt alveg merkilega hressandi. Mig langar að fara í einhverja mömmutíma með Maríu, verst að það er svo dýrt... bömmer.

Jæja, best að fara að mammast aðeins, einhver er að kalla :)
Gréta.