þriðjudagur, mars 29, 2005

2 vikur?

Hæ, hæ,

núna gæti verið að síðustu 2 vikurnar í mínu lífi séu að líða sem barnslaus einstaklingur :) (Vona að það séu ekki mikið meira en 2 vikur eftir, er komin 38 vikur + 3 daga þegar þetta er skrifað). Ég fékk smá kvíða yfir þessu í gærkvöldi en ég held að það sé nú alveg eðlilegt, þetta er eitt af stóru skrefunum hjá hverjum einstaklingi í lífinu, að verða foreldri. Ég missti nú samt ekki svefn yfir þessu, var ekki það stressuð :)

Páskarnir voru alveg yndislegir, ég svaf svo mikið og slappaði svo mikið af að ég hef bara ekki vitað annað eins. Þess á milli var ég bara í matarboðum hjá mömmu og pabba og tengdó :) Mér leið eins og algjörri prinsessu, allt þetta stjan við mann.

En svo tók nú alvara lífsins við í gær, mánudag. Þá byrjaði ég að fylgja eftir nýju matarplani. Reyndar er það þannig að ég borða svona rétt rúmlega helminginn af því sem er á dagskránni, það er bara ekkert pláss í maganum á mér þessa dagana. Mér reiknast það lauslega til að ég sé að innbyrða um 1300 kcal á dag, sem er alveg 700 kcal undir venjulegum dagskammti kvenna. En matarplanið hljóðar upp á ca. 1800-1900 kcal á dag þar sem ég ætla að létta mig eftir meðgönguna :) Meira um það síðar hvernig það á eftir að ganga.

Talandi um göngur, þá er ég svosem hætt að mæta í WorldClass, en reyni að fara í stutta göngutúra á hverjum degi. Í gær var labbað út í sjoppu eftir videóspólu. Ég hélt ég yrði nú bara ekki eldri, svo mikil var áreynslan við að komast upp Bragagötuna og "alla leið" upp á Bergstaðastrætið. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir svæðinu þá erum við ekki að tala um nema að labba upp 2 götur og það eru nú ekki beint breiðstrætin hérna í 101, þannig að þetta er mjög stutt vegalengd þannig séð :) Leifur sagði að ég hefði másið og blásið eins og búrhveli... djí, æði.

Svo er líka alveg svakalega ljúft að vera komin í fæðingarorlof :) Ég er bara heima í rólegheitunum að gera skólaverkefni þessa dagana. Svona að reyna að ganga frá eins miklu og ég kemst yfir áður en móðurhlutverkið skellur á. Svo verður maður bara að sjá til með prófin, hvort ég komist í einhver próf núna í apríl eða hvort þetta verður allt að bíða þangað til í endurtektarprófunum í ágúst. Hvort sem verður, þá verð ég að ná að skila inn þeim verkefnum sem sett eru fyrir til að hafa próftökurétt, þannig að það er nóg að gera! Það er líka fínt, það hjálpar til við að vera ekki að bíða of mikið eftir að þessu fari öllu að ljúka :)

Gréta.

mánudagur, mars 21, 2005

Skírn og skattur

Í gær var skírn hjá Bjarna bró og Önnu Láru. Litli frændi hann Kolbeinn Tumi hefur nú verið vígður inn í samfélag kristinna manna :) Ég fékk nú bara nett sjokk þegar ég sá drenginn, hann er orðinn alveg HJÚTS og ekki nema 3 mánaða...

Það verður einmitt spennandi að sjá hvort að litla krílið okkar Leifs verður svona myndarbarn eins og bræðurnir Nói og Tumi eða hvort þetta verður svona strumpabarn eins og öll litlu frændsystkin hans Leifs eru :)

Annars þá fór skírnarathöfnin fram í Akraneskirkju, alltaf svo kósí athafnirnar þar. Nói var alveg einstaklega stilltur og ég var svo stolt af honum þó hann væri nú ekkert mjög mikið að fylgjast með því sem presturinn var að gera :) Tumi var líka eins og hetja, yfirleitt fara börn að gráta við þetta sull í prestinum en hann var alveg sallarólegur. Reyndar svo svakalega afslappaður að hann missti snuðið beint í skírnarvatnið, en það var bara krúttlegt :)

Siggi bró og Helgi bróðir hennar Önnu Láru voru skírnarvottar og Siggi hélt á Tuma undir skírninni og tók sig bara vel út! Svo fóru allir í kaffi og kökur heim í Krókatúnið og pönnsurnar hans Bjarna slógu í gegn eins og venjulega.

En þegar þetta var búið var brunað aftur í bæinn og beint í skattframtalið. Það er af sem áður var þeir ljúfu dagar þegar maður átti alltaf inni pening hjá skattman, núna skuldum við tæpan 100.000 kall sem þarf að punga út í haust :( Algjör bömmer...

Gréta.

fimmtudagur, mars 17, 2005

Meira af hreiðurgerðinni

Ef þetta er ekki týpískt fyrir ólétta konu þá veit ég ekki hvað. Nú, það kom í ljós með skiptiborðið sem við Leifur fengum lánað hjá systur hans að það vantaði einn hnúð á eina skúffuna. Ekkert mál, við bara beint út í IKEA til að kaupa "einn hnúð og ekki neitt meira" eins og Leifur ítrekaði orðrétt fyrir mér á leiðinni inn... Í dag er kominn nýr sófi, nýtt sófaborð og nýr borðstofuskápur heim en þeir áttu því miður ekki hnúð eins og okkur vantaði :D

Jei, ég er svo ánægð með nýja sófann, það er actually hægt að liggja í honum án þess að drepa á sér bakið + að það er líka pláss fyrir Leif að liggja í honum án þess að við séum í algjörri kremju. Það er náttúrulega alveg bráðnauðsynlegt fyrir okkur að eiga góðan sófa, ég meina, við erum nú á leiðinni í fæðingarorlof og ég hef heyrt að það sé lítið annað fyrir okkur að gera á kvöldin en að hanga fyrir framan imbann fyrstu mánuðina! Svo þetta var bara gott múv.

Svo fórum við á foreldrafræðslunámskeið í gær. Ég var bara mjög ánægð með tímann, ljósmóðirin fór í gegnum lok meðgöngunnar og fæðinguna auk þess sem við fengum lánað myndband heim til að horfa á (líka um fæðingu). Ég er öll aðeins rólegri núna varðandi stóru stundina, var búin að vera pínu stressuð við tilhugsunina enda kannski bara eðlilegt þar sem þetta er eitthvað sem ég hef aldrei gengið í gegnum áður. Leifur aftur á móti limpaðist alveg niður og er meira stressaður núna varðandi fæðinguna heldur en áður. En ég held að það hafi bara verið eitthvað tilfallandi, hann á eftir að verða stoð mín og stytta þegar þar að kemur. Hefur alltaf verið það hingað til :)

Ekkert meira að frétta í bili.
Gréta.

mánudagur, mars 14, 2005

Hreiðurgerð

Þessi helgi var alveg einstaklega fín eins og flestar aðrar helgar :) Við Leifur fengum bæði rúm og kommóðu/skiptiborð lánað í búið og fyrir vikið er íbúðin eins mikið á hvolfi og hún gæti mögulega verið. Það hefur ekki verið svona mikið drasl í henni frá því við vorum að flytja inn! (svo enginn að koma í heimsókn alla þessa viku...)

Núna vantar okkur bara skiptiborðsdýnu, sæng, kodda, sængurver, barnabílstól og pakka af bleyjum, þá er allt klappað og klárt :) Svo ætlar systir hans Leifs að lána okkur svona poka til að hafa barnið í (Baby Björn), það er fínt að hafa svoleiðis ef mann langar í smá kengúruleik!

Ég er alltaf á klukkunni þessa dagana að telja niður í stóru stundina. Ég vona að barnið komi í heiminn 9. apríl og ekki mínútu síðar! Vonandi erfði litla skottan það frá mömmu sinni að finnast mikilvægt að mæta á réttum tíma. En ef hún hefur genin hans pabba síns þá gæti þetta léttilega dregist fram yfir sumardaginn fyrsta :(

Það er allt óbreytt frá fyrri dögum varðandi óléttuna. Barnið er mjög líklegast ekki búið að skorða sig þó það sé komið í höfuðstöðuna, amk. finnst mér enþá stundum erfitt að anda þegar ég leggst niður, en léttari andardráttur er eitt af því sem konur ættu að finna þegar barnið er búið að skorða sig. Svo er ég gjörsamlega að detta í sundur á mjaðmasvæðinu ég er með svo mikla þreytu í mjöðmunum og eitthvað viðkvæm á lífbeininu :( Ekki gaman, en sem betur fer eigum við svo gott rúm að ég næ alveg að hvílast og ná þreytunni úr að mestu yfir nóttina :) Þetta væri alveg living hell ef við værum enþá á gamla fangelsis-beddanum.

Þannig að í stuttu máli: allt gengur vel, smá þreyta komin í meðgönguna, heimilið alveg að verða móttökuhæft fyrir barnið og lítil hætta á því að eitthvað sé að fara að gerast fyrir settann dag :)

Gréta.

miðvikudagur, mars 09, 2005

8 mánuðir í dag!

Jei, síðasti mánuðurinn að ganga í garð í dag :)

Það er allt rólegt þannig séð, engar meiri háttar breytingar á mér síðustu dagana. Nema kannski það að frekari bjúgrannsóknir í gærkvöldi leiddu í ljós að kálfarnir á mér voru búnir að stækka ummál sitt um 3 cm! Jæks, leist nú ekkert á það. Sem betur fer hjaðnaði bjúgurinn aftur niður í nótt og voru þeir bara 1 cm stærri en fyrir meðgöngu í morgun. Núna er sko komin í gang bráðaáætlun varðandi bjúginn, 1/2 l af lime-vatni á dag + amk. 1 l af hreinu vatni, 1 bolli grænt te og svo sé ég mig tilneidda til að prófa greip :( Mér finnst greip samt mjög óspennandi því það er svo hrikalega súrt, kannski gefst ég upp á því strax í dag...

Ég fór í WorldClass í morgun, mætt hress og kát kl.8:30 :) Það féll nefninlega niður tími í skólanum. Ég fer nú ekki þangað til að gera mjög róttæka hluti, ég tek létta brennslu á skíðatækinu í ca. hálftíma og geri svo teygjur. Mér finnst þetta hjálpa mikið til við mjóbaksþreytu og þreytu í mjöðmunum þannig að ég sé ekki ástæðu til að hætta að mæta á meðan þetta er enn að gera mér gott :) Svo hitti ég Láru frænku í ræktinni, alltaf gaman að hitta einhvern sem maður þekkir.

En núna er kominn tími til að kíkja í heimsókn í Krónuna! Hamstra smá mjólk á meðan þeir eru enþá lifandi. Auðvitað mun Bónus hafa betur í þessu verðstríði, það er bara einhvern veginn þannig. Þeir eru búnir að standa sig best með verðin síðan '89 og einhver smá derringur hjá Krónunni mun ekkert breyta því svo auðveldlega. En það er gaman að breyta til á meðan tækifærið gefst, tala nú ekki um að geta fengið allt á einum stað, Bónus hefur nú ekki verið að rifna úr vöruúrvali hingað til...

Bæjó,
Gréta.

mánudagur, mars 07, 2005

Mánudagur

Jæja, enn einu sinni kominn mánudagur :)

Þetta styttist óðum, er að skoða það á dagatalinu mínu að ég á bara eftir að mæta 2 aðra mánudaga í vinnuna áður en ég fer í fæðingarorlofið (sem ég byrja í um páskana). Það verður ágætis tilbreyting, þá ætla að nota síðustu dagana til að liggja dáldið yfir skólabókunum ef svo skemmtilega skyldi vilja til að ég gæti mætt í einhver próf í vor. Mig grunar nefninlega að það verði ekki mikill tími aflögu til að læra mikið eftir að ég er búin að eiga.

Helgin var mjög vel heppnuð. Við Leifur vorum aðeins í því að hreiðurgerðast á laugardaginn, fórum í Rúmfatalagerinn og gerðum þar stórinnkaup á brýnustu nauðsynjum eins og lambagæru, handklæði með hettu, Disney sokkum, Bratz flísteppi, Pooh sokkabuxum, slefusmekkum, samfellum og fleira í þeim dúr. Svo gekk ég í það mál að þvo þau föt sem við erum búin að sanka að okkur og niðurstöður eru þessar: Það er annars vegar hvíta deildin og hins vegar bleika deildin af fötum! Þetta er alveg merkilegt, það er ekki hægt að fá nein föt í minnstu stærðunum í neinum litum öðrum en bleiku, bláu eða hvítu. Jú, kannski gulu, en ég fann t.d. ekki neitt grænt. Mig langaði dáldið í einhver græntóna föt því það er sko tískuliturinn í sumar :) En nei, ekkert svoleiðis fyrr en eftir 1 árs. Ótrúlega hallærislegt.

Í gær (sunnudag) var 5 ára afmæli í fjölskyldunni hans Leifs. Það var mjög skemmtilegt því það áttu allir að mæta í búningum og lætin í afmælinu alveg eftir því þegar allir voru að leika hlutverkið sitt :) Sem betur fer var svo gott veður að krakkarnir samþykktu öll sem eitt að fara aðeins út í garð að leika eftir kökurnar, *phew* það var léttir. Núna er ég alveg svakalega ánægð að eiga ekki von á mér fyrr en í apríl, það eykur líkurnar á því að barnaafmælin geti kannski að hluta til farið fram úti í garði í framtíðinni. Skil núna hvernig mömmu og pabba hefur liðið eftir barnaafmælin mín hérna í gamla daga. Einmitt þegar verstu vetrarhörkurnar eru að ganga yfir þannig að það var ekkert hægt að senda krakkastóðið aðeins út að viðra sig :D

Annars gengur meðgangan bara vel. Var að lesa það á BabyCenter.com að barnið er núna orðið ca. 45 cm og 2,3 kg. skv. tölfræðinni. Ég er enn ekki farin að fá neinn brjóstsviða (sem er víst mjög sjaldgæft að konur sleppi við komnar svona langt :) en ég er farin að fá smá bjúg. Hringarnir mínir koma ekki af nema með átökum og öklarnir eru orðnir eitthvað ískyggilega svampkenndir, sérstaklega á hægri fætinum! Skil það nú ekki alveg, en svona er þetta bara, marg skrítið sem gerist þegar maður er óléttur :)

Gréta.

fimmtudagur, mars 03, 2005

Vorið er komið og grundirnar gróa!

...með herkjum... en já, ég tók eftir því í morgun að það eru komin nokkur græn strá í garðinn! Ég fylltist strax yfirgengilegu bjartsýniskasti og fór að þrífa bílinn á fullu, alveg með rúðuspreyjið utan á og allt :) (eins og það eigi eitthvað eftir að endast). Já, og svo var kannski full mikil bjartsýni að ætla að ryksuga allan bílinn með handryksugunni, hefði sennilega verið bara fljótari að tína steinana af gólfinu með höndunum.

Annars þá fór ég í mæðraskoðun í gær. Sí-jitt maður, vantar ekki nema 1 kg. upp á að ég sé búin að bæta á mig 20 kg. á meðgöngunni! Oh dear God! Leifur fékk vægt taugaáfall, spurði voða hægversklega hvort það væri ekki "dáldið mikið". Jú, held það sé DÁLDIÐ mikið, svona vægast sagt.

Það er dáldið mikið að gera í skólanum þessa dagana, þess vegna skrifa ég frekar lítið, er t.d. að fara að flytja fyrirlestur í fyrramálið (föstudag) um innra eftirlit fyrirtækja í tengslum við endurskoðun. Já, já, svona er maður nú orðinn hámenntaður einstaklingur, bara eitthvað einangrað lið af fólki sem nennir að tala við mann nú orðið!

En jæja, kominn tími til að fara að lúlla.
Gréta.