mánudagur, mars 07, 2005

Mánudagur

Jæja, enn einu sinni kominn mánudagur :)

Þetta styttist óðum, er að skoða það á dagatalinu mínu að ég á bara eftir að mæta 2 aðra mánudaga í vinnuna áður en ég fer í fæðingarorlofið (sem ég byrja í um páskana). Það verður ágætis tilbreyting, þá ætla að nota síðustu dagana til að liggja dáldið yfir skólabókunum ef svo skemmtilega skyldi vilja til að ég gæti mætt í einhver próf í vor. Mig grunar nefninlega að það verði ekki mikill tími aflögu til að læra mikið eftir að ég er búin að eiga.

Helgin var mjög vel heppnuð. Við Leifur vorum aðeins í því að hreiðurgerðast á laugardaginn, fórum í Rúmfatalagerinn og gerðum þar stórinnkaup á brýnustu nauðsynjum eins og lambagæru, handklæði með hettu, Disney sokkum, Bratz flísteppi, Pooh sokkabuxum, slefusmekkum, samfellum og fleira í þeim dúr. Svo gekk ég í það mál að þvo þau föt sem við erum búin að sanka að okkur og niðurstöður eru þessar: Það er annars vegar hvíta deildin og hins vegar bleika deildin af fötum! Þetta er alveg merkilegt, það er ekki hægt að fá nein föt í minnstu stærðunum í neinum litum öðrum en bleiku, bláu eða hvítu. Jú, kannski gulu, en ég fann t.d. ekki neitt grænt. Mig langaði dáldið í einhver græntóna föt því það er sko tískuliturinn í sumar :) En nei, ekkert svoleiðis fyrr en eftir 1 árs. Ótrúlega hallærislegt.

Í gær (sunnudag) var 5 ára afmæli í fjölskyldunni hans Leifs. Það var mjög skemmtilegt því það áttu allir að mæta í búningum og lætin í afmælinu alveg eftir því þegar allir voru að leika hlutverkið sitt :) Sem betur fer var svo gott veður að krakkarnir samþykktu öll sem eitt að fara aðeins út í garð að leika eftir kökurnar, *phew* það var léttir. Núna er ég alveg svakalega ánægð að eiga ekki von á mér fyrr en í apríl, það eykur líkurnar á því að barnaafmælin geti kannski að hluta til farið fram úti í garði í framtíðinni. Skil núna hvernig mömmu og pabba hefur liðið eftir barnaafmælin mín hérna í gamla daga. Einmitt þegar verstu vetrarhörkurnar eru að ganga yfir þannig að það var ekkert hægt að senda krakkastóðið aðeins út að viðra sig :D

Annars gengur meðgangan bara vel. Var að lesa það á BabyCenter.com að barnið er núna orðið ca. 45 cm og 2,3 kg. skv. tölfræðinni. Ég er enn ekki farin að fá neinn brjóstsviða (sem er víst mjög sjaldgæft að konur sleppi við komnar svona langt :) en ég er farin að fá smá bjúg. Hringarnir mínir koma ekki af nema með átökum og öklarnir eru orðnir eitthvað ískyggilega svampkenndir, sérstaklega á hægri fætinum! Skil það nú ekki alveg, en svona er þetta bara, marg skrítið sem gerist þegar maður er óléttur :)

Gréta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home