þriðjudagur, mars 29, 2005

2 vikur?

Hæ, hæ,

núna gæti verið að síðustu 2 vikurnar í mínu lífi séu að líða sem barnslaus einstaklingur :) (Vona að það séu ekki mikið meira en 2 vikur eftir, er komin 38 vikur + 3 daga þegar þetta er skrifað). Ég fékk smá kvíða yfir þessu í gærkvöldi en ég held að það sé nú alveg eðlilegt, þetta er eitt af stóru skrefunum hjá hverjum einstaklingi í lífinu, að verða foreldri. Ég missti nú samt ekki svefn yfir þessu, var ekki það stressuð :)

Páskarnir voru alveg yndislegir, ég svaf svo mikið og slappaði svo mikið af að ég hef bara ekki vitað annað eins. Þess á milli var ég bara í matarboðum hjá mömmu og pabba og tengdó :) Mér leið eins og algjörri prinsessu, allt þetta stjan við mann.

En svo tók nú alvara lífsins við í gær, mánudag. Þá byrjaði ég að fylgja eftir nýju matarplani. Reyndar er það þannig að ég borða svona rétt rúmlega helminginn af því sem er á dagskránni, það er bara ekkert pláss í maganum á mér þessa dagana. Mér reiknast það lauslega til að ég sé að innbyrða um 1300 kcal á dag, sem er alveg 700 kcal undir venjulegum dagskammti kvenna. En matarplanið hljóðar upp á ca. 1800-1900 kcal á dag þar sem ég ætla að létta mig eftir meðgönguna :) Meira um það síðar hvernig það á eftir að ganga.

Talandi um göngur, þá er ég svosem hætt að mæta í WorldClass, en reyni að fara í stutta göngutúra á hverjum degi. Í gær var labbað út í sjoppu eftir videóspólu. Ég hélt ég yrði nú bara ekki eldri, svo mikil var áreynslan við að komast upp Bragagötuna og "alla leið" upp á Bergstaðastrætið. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir svæðinu þá erum við ekki að tala um nema að labba upp 2 götur og það eru nú ekki beint breiðstrætin hérna í 101, þannig að þetta er mjög stutt vegalengd þannig séð :) Leifur sagði að ég hefði másið og blásið eins og búrhveli... djí, æði.

Svo er líka alveg svakalega ljúft að vera komin í fæðingarorlof :) Ég er bara heima í rólegheitunum að gera skólaverkefni þessa dagana. Svona að reyna að ganga frá eins miklu og ég kemst yfir áður en móðurhlutverkið skellur á. Svo verður maður bara að sjá til með prófin, hvort ég komist í einhver próf núna í apríl eða hvort þetta verður allt að bíða þangað til í endurtektarprófunum í ágúst. Hvort sem verður, þá verð ég að ná að skila inn þeim verkefnum sem sett eru fyrir til að hafa próftökurétt, þannig að það er nóg að gera! Það er líka fínt, það hjálpar til við að vera ekki að bíða of mikið eftir að þessu fari öllu að ljúka :)

Gréta.

2 Comments:

At 11:34 f.h., Blogger Helga said...

Sæl Gréta, gangi ykkur vel. Gaman að fylgjast með síðustu dögunum fyrir fæðingu.
Bestu kveðjur
Helga Atladóttir

 
At 12:54 e.h., Blogger softone said...

Takk fyrir það :)
Gréta.

 

Skrifa ummæli

<< Home