föstudagur, desember 30, 2005

Síðasti föstudagurinn 2005

Jæja, síðasti vinnudagurinn á þessu ári. Ég er svooo mygluð að það er til vandræða, ég er alveg freðin í hausnum, man ekki neitt og er að reyna að klára skýrslu sem ég er búin að laga svo oft að mér líður eins og ég sé að rannsaka morðmál en ekki skrifa skýrslu um smá vörutalningu. Svona er nákvæmnin mikil í dag, alveg killer.

Ég fékk það verkefni hjá tengdafjölskyldunni að fara og kaupa flugelda í dag. Ætla að skreppa í Gullborg eftir vinnu og sjá hvað er til. Verð nú að segja að ég er alveg dottin út úr þeim pakka að nenna að skjóta upp, en það er gaman að horfa á alla hina :) Ég verð alltaf svo tötsý á gamlárskvöld, þoli það ekki. Þegar ég var lítil var þetta svo slæmt að mér leið alltaf eins og einhver væri að deyja þegar gamla árið kvaddi og það nýja tók við. Núna reyni ég að minna sjálfa mig á það að þetta eru bara tölur sem við notum til að geta skipulagt okkur betur, það er ekki árið 2005 í dag nema bara af því að við ákváðum það, þetta hefur þannig séð enga merkingu.

Ég man hvað það var merkilegt þegar árið 2000 var að koma, það var eins og fólk héldi bara að heimurinn myndi farast, æsingurinn var svo mikill í sumum. Svo núna er bara allt í einu að koma 2006 og maður hugsar með sjálfum sér, wait a minute, hvert fóru öll þessi ár eiginlega??? Ég man bara varla eftir árinu 2000 ef ég á að segja eins og er, 2001 er eitthvað loðið líka. Vá, I'm getting old.

Já, smá fréttir af Maríu Rún, 4. tönnin fannst í gær! Þá náði hún 4 tönnum á þessu ári, yeah beibí. Hin efri framtönnin er að koma niður, útskýrir kannski afhverju hún var með hita í gær.

En jæja, góða skemmtun allir saman á gamlárskvöld. Það verður smá teiti á Sóleyjargötunni eftir miðnætti fyrir fólk sem ætlar ekki að hrynja í það en nennir samt kannski ekki alveg að fara að sofa kl.00.30, ef einhver hefur áhuga á að kíkja :)

Gréta.

fimmtudagur, desember 29, 2005

Áramótafílingur

Jæja, árið bara að verða búið. Leið frekar fljótt, enda mikið um að vera á þessu ári í mínu lífi :) Ég er búin að gera nokkur áramótaheit: hætta að horfa á raunveruleikaþætti (it's gettin old), vinna nammibanns keppnina, gerast heimsforeldri í UNICEF (reyni að hafa alltaf eitt góðverkamarkmið), föndra meira (þegar námið er búið), fara oftar en tvisvar á ári í klippingu (kannski svona þrisvar, alveg óþarfi að sleppa sér!), mmm... það var eitthvað meira, man það ekki í bili :)

Hey, dagur nr.2 í fastri vinnu og ég er strax orðin aðal gellan á svæðinu. Nei, smá svona létt spaug, en engu að síður hefur mér hlotnast sá heiður að fá að setja mig inn í nýtt kerfi sem verður tekið í notkun hérna í vinnunni á næstu misserum. Í framhaldi af því þarf ég svo að kenna öllum hinum á þetta mega júnit. Það er nefninlega þannig þegar það kemur að endurskoðun að forritið Excel er mikið þarfaþing, en samt mjög takmarkað (þótt ótrúlegt sé). T.d. tekur venjulegt Excel sheet ekki nema rétt rúmar 65.500 færslur sem er náttúrulega allt of takmarkað. Svo eru allar samanburðarkeyrslur og tjékk svo primitiv eitthvað að það þarf að forrita sérstakt dæmi í kringum endurskoðun. Eitthvað kerfi sem maður týnist bara strax í. Þú ýtir á einn takka og búff, allt í steik og maður svitnar og fær aukinn hjartslátt og snert af panic attack við að vinna í kerfinu. Sko, þá er ég að lýsa venjulega kerfinu sem við vinnum í frá degi til dags. Nýja kerfið sem ég er að setja mig inn í er enþá verra, eða betra eftir því hvernig á það er litið :)

Jæja, kannski meira um það síðar, ekki víst að venjulegu fólki finnist þetta eitthvað spes :D

Bæjó,
Gréta.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Guð blessi koffeinið

Ég veit ekki hvað er í gangi með Maríu Rún þessa dagana, hún vaknar hvert einasta kvöld eftir að hafa sofnað eins og engill, og vakir bara í svona 3 tíma! Í gær fylltist mælirinn, ég hélt hún væri hætt þessu en þá vaknaði hún kl.00.25 og var vakandi til 3 í nótt að sögn Leifs. Svo ég ákvað að við yrðum að vera svaka strangir og leiðinlegir foreldrar og alls ekki taka hana upp til að gefa henni eða neitt. Hún orgaði náttúrulega úr sér lungun, en það var nú ekki það versta. Það sem er erfiðast er nobody-loves-me-snöktið sem heyrist í svona 40 mínútur eftir að hún gefst upp á orginu. Þá er eins og það sé rifið úr manni hjartað og því hent í tætarann. En ég var of þreytt til að hlusta á þetta og sofnaði vært kl.2.

Já, það er nýtt tímabil í mínu lífi núna. Ég er officially komin út á vinnumarkaðinn! Vuhú, kominn tími til. Ég var að skoða dagatalið fyrir 2006 í gær og bara... shitt hvað þetta er mikið af vinnudögum :( Mér leist eiginlega ekkert á þetta, en það hlýtur að venjast fljótt. En ég er semsagt frekar mygluð í vinnunni í dag, tók með extra mikið koffein í nesti til að halda mér gangandi. Maður hressist svosem við að vera í talningunum sem standa yfir núna, var einmitt að telja málverk áðan. Sá þá að ég hef nákvæmlega engan smekk fyrir listaverkum, hugsaði bara með mér "kostar þetta skítamix 350.000 krónur!? Kræst".

Eins og kannski sumir vita erum við Siggi bró að fara í nammibannskeppni núna strax eftir áramót. Þetta verður alvöru keppni, potturinn byrjar í 5.000 krónum og hækkar svo um 500 kall í hverri viku þar til 10.000 krónum er náð. Það eru veðbankar komnir í gang, mér í óhag svosem. Þeir vita það sem þekkja hann Sigga að hann er þrjóskari en höfuðpaurinn í því neðra þegar kemur að peningum. Svo hann ætlar að tækla keppnina á þrjóskunni einni saman. Ég hins vegar er búin að setja upp áætlanir og varaplön B, C og D til að halda mér við efnið. Mín sterka hlið eru áætlanir, ég elska áætlanir. Sérstaklega þær sem fela í sér daglegar skráningar, vikulegar mælingar og samanburði sem hægt er að setja upp í Excel... þannig að ég mun tolla inni allan tímann líka! Ef hvorugt okkar tapar förum við og kaupum okkur eitthvað í verðlaun fyrir 10.000 kall að 10 vikum liðnum.

Jæja, best að fara að gera skýrslu um málverkin.

Gréta.

föstudagur, desember 23, 2005

Slömmið skreytt

Jæja, loksins komin Þorláksmessa. Ég byrja aldrei að þrífa fyrir jólin fyrr en á Þorláksmessu. Hljómar kannski eins og ég nenni minnst í heimi að þrífa, en ástæðan er nú bara sú að ég hef alltaf verið í prófum alveg til 20. desember og hef þá notað dagana fram að 23. desember til að klára að græja jólakort og -gjafir, finnst minna stressandi þó það eigi eftir að skúra heima.

Og í morgun vaknaði ég og byrjaði að þrífa. Almáttugur, rifjaðist þá upp fyrir mér að ég hafði sleppt nokkrum jólahreingerningar stöðum í fyrra út af óléttunni, þannig að við vorum að tala um tveggja ára uppsafnað ryk og önnur óhreinindi. Ég held ég ætli ekki að spilla matarlystinni hjá fólki fyrir hátíðarnar með því að lýsa því í smáatriðum hvernig eldhúsið var tæklað. Það er sko engin vifta hjá okkur þannig að öll gufa fer bara einhvern veginn út um allt og allt ryk festist extra vel í eldhúsglugganum, auk þess sem ég er alltaf með rifu á glugganum til að hleypa gufunni út, en í staðinn kemur þá inn mengun af umferðinni úti. Það dugði ekkert minna en stálull, hreingerningarsvampur og hreint Ajax í þetta.

En jæja, eitt af því sem er gott við að búa í lítilli íbúð er að það tekur ekki langan tíma að þrífa. Ég byrjaði um 8 leytið í morgun og var nánast búin um 3 leytið. Erum reyndar ekki búin að setja upp tréð, þarf að hliðra eitthvað til í stofunni til að koma því fyrir. Ég er einmitt að skrópa í skötuveislu hjá Svenna frænda núna af því að allt er á haus. Sérstaklega inni í eldhúsi, alveg merkilegt, en við vorum að fá nýjan ísskáp í dag :) Þess vegna er maturinn út um allt.

Stundum finnst mér eins og ég sé eitthvað öfga óheppin alltaf. Það kannast nú margir við það hvað það er pirrandi að lenda í því að læsa bíllyklana inni í bílnum. Tómt vesen. Nú jæja, í gær lenti ég í því að læsa allan bílinn eins og hann leggur sig inni - í bílastæðahúsi. Ég fór út að borða með Þóru og Elísu og lagði bílnum í þetta fína bílastæðahús á meðan. Svo kom ég aftur út og bara, hey, búið að loka húsinu!? Helló, anybody there??? Nei, nei, bíllinn þurfti bara að vera þarna (í góðu yfirlæti) í nótt. Ég var alveg á tauginni, bjóst kannski við að bíllinn yrði dreginn í burtu eða ég fengi sekt fyrir að hafa hann þarna inni en svo var sem betur fer ekki :) Hey, ég þurfti alla vegana ekki að skafa í morgun!

Ég ætla núna að fara í smá jólafrí, blogga kannski á milli jóla og nýárs, ef ég nenni. Ég óska öllum gleðilegra jóla og munið að ganga hægt um gleðinnar dyr, mikið salt fer illa í skrokkinn. Bara vera dugleg að drekka vatn og borða ávexti, t.d. mandarínur og þá verður þetta fínt! Já, talandi um mandarínur, ég keypti kassa af þeim í Hagkaupum um daginn og henti honum eftir fyrstu mandarínuna. Það voru 23 steinar í henni! Það var varla pláss fyrir mandarínu inn í skrælinu, það voru svo margir steinar. Skandall, alveg glatað! Þannig að það eru mandarínulaus jól á mínum bæ í ár :)

Gleðilega hátíð,
Gréta.

þriðjudagur, desember 20, 2005

Jólafrí

Jæja, þá er ein strembnasta prófatörn sem ég hef tekið yfirstaðin og ég er komin í smá jólafrí :) Ég get ekki sagt að ég eigi von á glæsilegum einkunnum fyrir þessi tvö próf sem ég var að taka. Allan tímann sem ég var að lesa fyrir prófin einkenndust hugsanir mínar af setningum eins og "var þetta kennt í námskeiðinu?" og "eigum við að vera búin að læra þetta?... merkilegt". Og svo kannski sama dag og prófið er, svona klukkutíma og 17 mínútum fyrir próf kemur "eigum við að vera búin að læra um innra virði valréttasamninga!? Hólý mólí". Þannig að já, þið sjáið heildarmyndina á þessu.

Ég skil núna betur afhverju konur taka oft ekki nema eitt námskeið önnina eftir barnseignir, það er eiginlega bara of erfitt. Það er búið að mæða mjög mikið á fjölskyldunni að ég sé í 80% námi, 100% móðurhlutverki, 30% vinnu og að reyna að sinna áhugamáli mínu um líkamsrækt allt á sama tíma. Mæli eiginlega ekkert með því sko. En svona er þetta, ég er komin með of mikinn námsleiða til að reyna ekki við það að tækla 4 námskeið þessa önn, sem betur fer er þetta búið núna og ég legg það í hendur almættisins að kennararnir séu í góðri jólastemmingu við yfirferð prófanna, skemmir ekki ef þeir væru nú kannski með smá jólaglögg sér í hönd við verkið...

Annars þá á hann Kolbeinn Tumi 1 árs afmæli í dag! Vííí, til hamingju með það "litli" kall. Hann er nú ekkert lítill lengur, er óðum að breytast úr krúttlegu ungabarni í stálpaðan krakka. En það er bara betra, þá er hægt að gera meira með honum :) Því miður komumst við ekki í afmælið í dag því hún María Rún tók upp á því að fá hita í nótt og liggur núna í veikindum. Ekki gott mál, samt lán í óláni að þetta gerðist í nótt en ekki síðustu nótt, þá hefði ég kannski ekki komist í prófið í gær.

Verst að ég hefði þurft að komast með jólakortin í póst í dag, redda síðustu jólagjöfinni og afmælisgjöf fyrir Kolbein. Talandi um jólagjafir, ég hélt ég myndi springa úr pirringi í gær. Eins og ég ritaði fyrir nokkru komst ég að því að Leifur vildi ekki heilsukodda í jólagjöf. Ég keypti því handa honum skó. En það er ekkert gaman að fá skó því maður þarf að máta þá = hann veit hvað hann fær. Þannig að ég keypti íþróttatösku líka til að gefa honum frá Maríu. Svaka stór og spennandi pakki... nei, nei, kemur gaurinn ekki heim úr vinnunni í gær með íþróttatösku merkta Samskipum. Jólagjöf frá vinnustaðnum... Hvernig er þetta hægt!? Ég er búin að ætla að gefa honum nýja tösku ógeðslega lengi og svo loksins þegar maður lætur verða af þessu fær hann endilega tösku frá einhverjum öðrum líka... Ég varð svo fúl að ég sagði honum að ég ætlaði að skipta þessari tösku og kaupa eitthvað handa sjálfri mér, þýðir ekkert að finna eitthvað fyrir hann. Síðasta hálmstráið núna er kannski að kaupa borvél, veit hann langar í svoleiðis líka, kannski öruggara (og hagkvæmara) að bíða bara eftir útsölunum í janúar :)

Jæja, farin að undirbúa jólin.
Gréta.

mánudagur, desember 12, 2005

Þriðja tönnin komin!

Jæja, Sússý frænka (dagmamman) hringdi í morgun og bað mig að sækja Maríu Rún því hún væri með hita. Ég skildi ekkert í þessu, hún var ekkert slöpp þegar hún vaknaði... Svo lækkaði hitinn strax aftur, var farinn núna í hádeginu og nýjasta tönnin komin fram :) Hún er að gnísta tönnunum núna, hræðilegt hljóð *hrollur*. Það er semsagt efri vinstri framtönn sem er nr. 3 í röðinni til að koma, alltaf að stækka þessi litla dama.

Jæja, back to business, er að reyna að læra með þennan grisling hjá mér = gengur alveg hræðilega hægt.

G.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Prófalestur

Jamm og jæja, stundin er runnin upp. Þarf seriously að fara að taka skólabækurnar úr plastinu og glugga í þær... Það gengur enþá mjög illa að fá Maríu í rúmið á kvöldin, svo slæmt að það er ekki einu sinni fyndið. Lestíminn minn fer allur í svefn loksins þegar maður fær break :(

Svo var Elísa að hringja í mig áðan, komin upp síða fyrir grunnskóla reunionið sem verður næsta ár. Djíses, er það ekki orðið merki um að maður sé að eldast, komin 10 ár síðan maður útskrifaðist úr grunnskóla! Ég man eins og það hefði gerst í gær... Jæja, alla vegana tryggt að maður setur frekari óléttur á ís framyfir þetta geim! Þýðir ekki að forfallast aftur.

Enívei, þarf að fara að lesa. Mun örugglega blogga frekar lítið næstu 2 vikurnar eða svo, nema eitthvað krassandi gerist, þá kannski tjékkar maður inn.

Gréta.

föstudagur, desember 02, 2005

Erfið vika

Það er allt búið að vera í rugli eftir þessi veikindi hjá Maríu Rún síðustu helgi. Svefninn fór alveg úr skorðum og núna er svo erfitt að láta hana fara að sofa á kvöldin að það er bara hræðilegt. Alla þessa viku er ég búin að vera að reyna 5-mínútna aðferðina svokölluðu, auðvitað með smá mistökum inn á milli, þannig að þetta gengur hægt... en gengur sem betur fer samt smá :)

Ég sit frammi í sófa öll kvöld og hlæ svona móðursýkislega að því hvað barnið grætur hryllilega sárt (í mínum eyrum auðvitað). Svo bíð ég í 5 mínútur áður en ég fer inn og laga hana til í rúminu og segi henni að það sé komin lúlli-tími, næst bíð ég í 10 mínútur og svo 15 mínútur eftir það. Lít alltaf á klukkuna á 10 sekúndna fresti, "ok, það hlýtur að vera komið 5 mínútu mark núna... nei, bara 1 mínúta...." *andvarp*

Það versta við þetta er að Leifur (og ég líka auðvitað) erum ekki að fá nema 6 tíma svefn á næturnar og hann er sko að vinna frá 8 á morgnana til 9 á kvöldin 3 kvöld í viku. Þokkalega þreyttur á því enda lenti hann í vinnuslysi í gær sem ég vil bara kenna þreytu um að hafi gerst. Nuddaði hendinni á sér hressilega upp við nýskorið stál (sem er beittara en andskotinn óslípað), læknarnir á slysó voru hálftíma að tjasla honum aftur saman. Ég skikkaði hann í að taka sér veikindadag í dag, gæjinn ætlaði bara að fara í vinnuna eins og ekkert væri! Gat ekki einu sinni bundið hnút á ruslapokann heima hjá sér, bjartsýnn að ætla í vinnuna.

En framfarirnar hjá okkur síðan á mánudaginn eru að María Rún er að detta út svona rétt fyrir kl.11 á kvöldin í staðinn fyrir 1 eftir miðnætti eins og síðustu helgi og í byrjun vikunnar. Í gær gerðum við reyndar smá mistök, hún var enþá svöng og það endaði með því að ég náði að svæfa hana með pela. Ég ætla að vona að ég nái henni niður í það að fara að sofa á milli 9 og 10 á kvöldin, það væri æði.

Gréta - þreytt húsmóðir.