Ættarmót hið fyrra
Við fórum á ættarmót um helgina hjá fjölskyldunni hans Leifs. Það var austur á Djúpavogi. Ó mæ got, að mínu mati er Djúpivogur full langt frá Reykjavík til að skreppa þangað yfir eina helgi, maður lætur sig hafa það að fara til Akureyrar fyrir eina helgi (tæpir 400 km) en Djúpivogur... þá erum við að tala um rúma 550 km frá bænum og það fer nú bara heill vinnudagur í að keyra alla þá leið. Enda vorum við orðin hauslaus af þreytu þegar við komum austur á föstudeginum, sáum ekkert hvað það er fallegt þarna fyrir austan fyrr en daginn eftir þegar maður var aðeins búinn að hvíla sig :)Ég verð alltaf jafn hissa á vegakerfi Íslands þegar ég fer út á land, hvað er með þessa vegi!? og það þjóðveg númer eitt??? Allur vegurinn er eins og ein akrein á Interstate vegunum í Bandaríkjunum. Svo er maður látinn þræða einhverja ræmu lengst upp á fjalli þar sem búast má við aurskriðum á hverri sekúndu og ekki einu sinni verið að splæsa í vegagrindverk alls staðar þar sem þverhnýpi og klettabelti eru fyrir neðan mann. Almáttugur, enda þurftum við að veita einum Kana smá sáluhjálp á söndunum. Hann var með sprungið dekk og kunni ekki á tjakkinn og vantaði skiptilykil af réttri stærð líka. Og hann var bara gráti næst og hræddur um að verða úti "in the middle of nowhere" eins og hann orðaði það sjálfur. Hehe, smá survivor fílingur að fara út á land á Íslandi.
Það er alveg ótrúlega fín sundlaug á Djúpavogi, frekar ný held ég og þangað fórum við með Maríu í sund í fyrsta sinn. Gaman, gaman :) Núna verð ég sko að komast með hana á námskeið. Annars virkaði ættarmótið frekar stutt, svona eftir á, maður kom seint á föstudegi og eyddi kvöldinu í að koma sér fyrir, svo var hittingur á laugardeginum með ættinni og svo voru bara allir farnir aftur í bæinn snemma á sunnudeginum, en þar spilaði inn í veðurspá um vitlaust veður og líka það að það tekur 8 tíma að komast á milli (með stoppi í sjoppum). Semsagt, frekar snubbótt eitthvað, vonandi verður næsta ættarmót bara ekki á Djúpavogi.
Gréta.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home