Sumardagurinn 1.
Jæja, litla daman lét loksins sjá sig fimmtudaginn 21. apríl kl.5:47. Hún var 14,5 merkur og 51 cm og okkur Leifi leið náttúrulega eins og merkilegasti atburður allrar mannkynssögunnar fyrr og síðar hefði átt sér stað beint á rúmstokknum hjá okkur :)Aðdragandi fæðingarinnar var þannig að aðfaranætur þriðjudags og miðvikudags gat ég lítið sem ekkert sofið fyrir verkjum, en það var alltaf það langt á milli verkjanna að þeir töldust ekki vera almennilegar hríðir. Á miðvikudagsmorgni fór ég í mæðraskoðun, aðallega mónitor bara. Ljósmóðirin sem var á vakt þá sagði að ég væri komin með 2-3 cm í útvíkkun og að ég væri við það að fara í gang (vonandi). Hún sendi okkur Leif heim með smá parkódín fyrir mig og sagði okkur að reyna að ná eins mikilli hvíld og við gætum. Ég náði að sofa samfleytt frá kl.10:30 - 13:30 og þótti það ansi gott miðað við undanfarna 2 sólarhringa :)
Svo hætti parkódínið að virka og hríðarnar fóru að "kikka inn" en alltaf voru svona 7-15 mín. á milli þeirra (þumalputtareglan er að fara upp á spítala þegar það eru 5 mín. á milli). Upp úr Kl.19:00 á miðvikudagskvöldi gafst ég eiginlega upp og vildi fara að fara upp á spítala þó svo það væri meira en 5 mín. á milli verkja, því þeir voru það sárir að ég var hætt að geta "andað mig í gegnum þá" og brast hreinlega í grát við hverja hríð.
Þannig að við vorum mætt upp í Hreiður um kl.21.30 og auðvitað sett í mónitorinn. Eftir að hafa engst um í honum í hálftíma kom ljósmóðirin til okkar og fór svona að undirbúa málin með okkur. Ljósmóðirin var ekki Bobba því miður, en sú sem var á vakt heitir Rannveig og var alveg ótrúlega góð :) Við vorum mjög heppin að fá hana. Hún athugaði leghálsinn hjá mér og tilkynnti að útvíkkun væri komin í ca. 4 cm. Djí, æði, 12 tímar af verkjum og búinn að ávinnast 1 cm! *Andvarp* ég fór að gera mér grein fyrir því að þetta yrði dáldið löng nótt.
Ég tók þann pól í hæðina að vera ekki að gera þetta neitt erfiðara en það þyrfti að vera og bað um að fá deyfingu. Ég byrjaði á að þyggja glaðloft, en varð bara flökurt af því og vildi fá peditín sprautu. Þvílíkur lifandis léttir að fá þá sprautu! Reyndar varð ég svo sky-high af sprautunni að Leifur sagði mér eftir á að hann sæi eftir að hafa ekki tekið mig upp á myndband (við vorum auðvitað með cameruna meðferðis). Ég datt alveg úr sambandi við umheiminn og svaraði bara einhverju tómu bulli þegar einhver yrti á mig :) Þetta var mjög gott tímabil af nóttunni, þarna náðum við að hvíla okkur aftur alveg í 3 tíma nánast (á milli kl.23 og 2) þar sem ég gat alveg andað í gegnum hríðarnar og notað glaðloftið óspart, sofnaði meira að segja með grímuna á mér...
En svo fékk ég þær leiðinlegu fréttir frá Rannveigu að ekki væri hægt að fá þessa sprautu nema einu sinni þar sem eitthvað af lyfinu skilst yfir í fóstrið. Fúlt maður, hefði viljað klára fæðinguna með peditíni. Ókey, þannig að ég sá fram á smá dópskort og bað um mænudeifingu. Það var hægt að fá hana og díses kræst var það vont að láta stinga 10 cm. plastslöngu inn á milli hryggjaliðanna hjá sér með ströng fyrirmæli um að helst ekki einu sinni anda, maður þarf að vera svo kjur þegar maður fær þessa deyfingu. Tala nú ekki um að peditínið var einmitt hætt að virka þegar svæfingalæknirinn hafði loksins tíma til að deyfa mig þannig að hríðarnar komu inn í alveg full force.
Jæja, eftir að hafa þegið sterkasta stöffið á svæðinu beint í æð (eða frekar mænusvæðið) þá gat ég bara ekki annað en lagst niður á hægri hliðina og notið vímunnar ef þannig má að orði komast. Þetta virkar alveg stórkostlega þannig að það er bara klippt á hríðarnar í eitt skipti fyrir öll og ég man eftir að hafa látið út úr mér eftir þetta að fæðingar væru nú bara ekkert mál ef þessar hríðar væru ekki hluti af þeim :) Rannveig fór bara að hlæja en sagði að það væri nú dáldið til í
því hjá mér.
Þegar þarna var komið var klukkan ca. 4 og útvíkkun komin í 8 cm. af 10 og Gréta sofnuð. Ekki alveg nógu gott mál, þannig að Rannveig náði í Drippið. Og já, ekki má gleyma því að hún rauf líka belgina hjá mér þar sem vatnið var aldrei búið að fara. Það kom svona smá gusa af vatni, ekkert svakalegt fannst okkur Leifi. Drippið og belgrofið urðu til að spítta hlutunum aðeins upp og ég vaknaði aðeins við að undarleg þrýstingstilfinning kom upp hjá mér. Rannveig sagði mér þá að útvíkkuninni væri lokið og núna gæti ég farið að rembast. Þá var klukkan rúmlega 5 og þessi tími,
frá rúmlega 5 og til kl. 5:47 er tvímælalaust merkilegasti tími sem ég hef upplifað so far.
Það var alveg ótrúleg tilfinning að finna að barnið var í alvörunni að leggja af stað niður fæðingarveginn og að koma út. Ég lá á hægri hliðinni alla fæðinguna og Leifur hélt vinstri fætinum hjá mér uppi með fyrirmæli frá Rannveigu um að þrýsta hnénu hjá mér að maganum við hvern rembing. Þetta fannst mér alveg fínasta fyrirkomulag, ég var orðin svo þreytt að ég hafði ekki orku í að gera neitt annað en að rembast og var því alveg svakalega þakklát að Leifur var þarna með mér allan
tímann og gat tekið svona mikinn þátt í fæðingunni.
Ég varð reyndar hrædd á tímabili um að þetta væri ekki að ganga, því hausinn á barninu stoppaði alltaf á lífbeininu á leiðinni út, það tók örugglega 6 eða 7 rembinga bara að komast fram hjá því. Ég varð pínu hrædd um að það þyrfti að skera eitthvað í mig til að barnið kæmist út :( En þetta fór allt vel, hausinn poppaði loksins fram hjá lífbeininu og byrjaði að koma út, það tók nú alveg jafn langan tíma og að komst fram hjá lífbeininu. En Leifur og Rannveig hjálpuðu mér að komast í
gegnum þetta, Rannveig með þrumandi fyrirmæli um það hvort ég ætti að vera að rembast og hversu mikið og Leifur með því að rembast með í hvert skipti og stýra fætinum hjá mér :)
Svo þegar hausinn kom út þá var bara eins og fiskabúr hefði gefið sig og það gusaðist út allt á einu andartaki, litla barnið okkar og legvatnið. Leifur þurfti alveg að hoppa frá rúminu til að bjarga sér og Rannveig rétt náði að grípa barnið sem var á flugferð á leiðinni út á gólf :D Og þá heyrðum við barnagrát, þann nýjasta í bænum. Það eru margir búnir að spyrja hvernig fyrsta tilfinningin hafi verið að vita að þetta var búið, hvort við hefðum grátið eða farið að hlæja og svona... En það kom eiginlega bara upp smá Beavis and Butthead móment hjá okkur Leifi, hvorugt
okkar virtist fatta að Rannveig var að tala við okkur þegar hún spurði hvort okkar vildi taka við henni. Eftir smá stund rétti ég fram hendurnar og tók hana í fangið á meðan Leifur fékk að klippa naflastrenginn. Og þegar það var búið áttuðum við okkur á því að við værum orðin 3 manna fjölskylda :)
1 Comments:
Mig langaði bara að óska ykkur báðum innilega til hamingju og gaman að fá að fylgjast svona með á blogginu þínu Gréta:)
Skrifa ummæli
<< Home