þriðjudagur, september 13, 2005

Gengið

Hvernig er hægt að hafa svona mikið að gera? *svitn* Ég var til kl.2.30 að gera verkefni aðfaranótt mánudags og svo til miðnættis í gær að gera verkefni líka. Þetta var verkefni um skattauppgjör fyrirtækja, svaka gaman :) Já, það er til skrítið fólk sem hefur gaman að skattamálum og ársreikningum. Svoleiðis fólki er safnað saman á viðeigandi stofnanir sem oft bera vinnuheitið endurskoðendastofur...

Það þýðir ekki annað en að reyna að hafa gaman að því sem maður er að gera, ég trúi því að það sé einn af lyklunum að lífshamingjunni, að finna starf sem maður getur unnið starfsins vegna, ekki bara til að eiga fyrir reikningum.

Annars er bara búið að vera nokkuð gaman í skólanum núna undanfarið. Var í fyrirlestri í gær hjá manni sem vinnur í Landsbankanum. Hann er að kenna okkur allt um alþjóða fjármálamarkaði og gengi krónunnar og svona. Hélt þrumandi fyrirlestur um það að nú væri sko allt hagkerfið á suðupunkti og færi til helvítis strax á næsta ári, það hvarflaði að manni að rjúka út í banka og kaupa dollara til að bjarga eigin skinni ef þjóðarskútan skyldi nú endanlega sökkva... En svo er auðvitað Dabbi kominn í brúna í Seðlabankanum, allt getur gerst! Bara spenna í fjármálaheiminum, allir að veðja á það hvernig vaxtastigið á Íslandi muni þróast á næstu mánuðum. Undarlegt þegar maður situr í fyrirlsestri þar sem annað hvert orð er eitthvað "hagvísitölur", "verðbólga", "stýrivextir" og álíka hlutir að þá náði þessi maður bara að vekja almennan áhuga og umræður í hópnum, og það gerist nú ekkert svakalega oft.

Í morgun var svo sjónvarpsstjóri Skjás 1 að segja okkur frá launakvatakerfum í fyrirtækjum og hvernig allt er keyrt á bónusum í auglýsingasölu hjá sjónvarpsstöðvum. Gaman að því, fegin er ég að vera ekki sölumaður, allt of mikið stress. Menn eru að brenna út í starfinu á svona 6-7 árum, nei, það er sko ekki fyrir mig. Svo sagði hann okkur líka að þeir séu með pælingar um að endursýna vinsælustu þættina sína alltaf á laugardagskvöldum núna í vetur, mér líst vel á það, ekki eins og ég hafi tíma til að horfa á virkum dögum þetta misserið.

Jæja, þarf að fara að lesa.
Gréta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home